Best menntaði jazzleikari allra tíma

Bird

Ungi maðurinn sem labbar upp úr neðanjarðarlestinni á Houston Street í New York borg, vel klæddur í blá jakkaföt, í hvítri skyrtu með bindi, er ungur tónlistarmaður að nafni Jackie McLean. Árið er 1949 og Bebop er nýja jazzæðið, nútímastefnan í jazz sem allir unglingar eru að hlusta á og fáir, eins og McLean, að læra að spila. Hann er átján ára gamall og sérlega góður á hljóðfæri fyrir svo ungan mann. Reyndar svo góður að hann er á leiðinni í Chateau Gardens þar sem Art Blakey og nokkrir nútíma jazzmúsíkantarnir mæta bráðlega til að spila sitt fyrsta sett. 

Fyrr um daginn hafi Jackie komið heim þar sem hann fann mömmu sína í hálfgerðu uppnámi, hún sagði honum, þó að hún væri viss um að hann mundi ekki trúa henni, að Charlie Parker hefði hringt. Ungi maðurinn krafðist þess að fá skilaboðin frá Bird. Parker hafði beðið um að Jackie klæddi sig í blá jakkaföt og mætti niður í Chateau Gardens og spilaði í stað Parkers þangað til hann kæmi síðar um kvöldið. Ungi maðurinn var sá fyrsti úr bandinu til að mæta, hann beið óþreyjufullur eftir að fá að leysa Bird af. Parker hlýtur að hafa fundist mikið til hans koma sem spilara því að hann var ekki vanur að fá menn til að leysa sig af, en ef hann gerði það þá voru það yfirleitt eldri og reyndari spilarar sem hann fékk til verksins.

Þegar Blakey og hinir músíkantarnir mættu kom Jackie skilaboðum Parkers til Blakey. Blakey þekkti Parker vel og hafði sé Jackie spila á börum bæjarins og vissi að þetta var það sem Parker vildi. Blakey tilkynnti áhorfendum að Parker kæmist ekki fyrr en síðar og að ungi maðurinn mundi taka hans stað þangað til. Áratugum síðar í viðtali við Ken Burns sagði Jackie að hann hefði skynjað vonbrigðin hríslast í gegnum salinn þegar Art kynnti hann inn, en hann ætlaði ekki að láta það aftra sér, hann ætlaði að nýta tækifærið til fulls með blessun meistarans.

Bandið byrjaði að spila og Jackie kallaði inn lögin í fjarveru Parkers með blessun Blakeys. Hann spilaði Confirmation, A Night in Tunisia, Now´s the Time og ballöðuna Don´t Blame Me. Þetta voru allt lög sem Parker var vanur að spila og hinn ungi Jackie hafi lagt svo mikið á sig til að ná að spila með þeirri einstöku tilfinningu sem Bird hafði, þessir Bebop frasar sem allir ungir tenórsaxófónleikarar voru að reyna að herma eftir. Skyndilega verður mikill kurr aftast í salnum, þar sést saxófóntaska á lofti og hersýning sem fylgir Parker að sviðinu, salurinn fór allur á ið. Jackie gerði sig líklegan til að stíga af sviði en Parker gaf honum merki um að vera áfram. Parker gekk í rólegheitum upp á svið, setti saman saxófóninn sinn og tók eitt lag með lærlingi sínum, sem Jackie varð eftir þetta. Jackie hlustaði á allan konsertinn en eftir á kom Parker til hans og lét hann hafa fimmtán dollara, sem var mikill peningur á þeim tíma, fyrir að spila. Jackie og Parker áttu eftir að leigja margan saxófóninn saman, Jackie fylgdi Parker svo fast að málum að hann tók meðvitaða ákvörðun um að byrja að nota heróín því að Parker gerði það. Sú tilraun stóð yfir í þrettán ár og mestallan þann tíma var McLean fjölskyldumaður sem náði að standa sína plikt og sjá fyrir fjölskyldu sinni og ávana sínum.

Bud

Sugar Hill í Harlem skaraðist við 155ta stræti í norðri og 145ta stræti í suðri. Svæðið liggur hátt með útsýni út yfir Manhattan. Þarna bjó Jackie McLean frá tólf ára aldri, umkringdur ungu fólki sem margt varð líka jazz sólóistar. Eitt af fyrstu hverfisböndunum sem Jackie var í setti hann í forgrunn ásamt tveim saxafónleikurum, Sonny Rollins og Andy Kirk Jr. Píanistinn var Kenny Drew. Art Taylor var einn af hverfistrommurunum, hann vingaðist snemma við Sonny, sem og Richie Powell og síðar bróður hans Bud. Svæðið hafði alltaf verið himneskt fyrir jazz listamenn. Það var hér sem Billie Holiday tróð oft upp, ásamt Duke Ellington, Arnett Cobb, Don Redman, Nat King Cole og mörgum öðrum. Mörgum árum síðar átti Jackie eftir að kynna sig sem „sykurlausan saxófónleikara“, en greinendur voru aldrei vissir um hvort hann væri að vísa í sitt gamla hverfi.

Jackie hafði oft orð á því hvað hann væri heppinn að hafa alist upp með alla þessa listamenn við hurðarstafinn hjá sér, stundum bókstaflega eins og í tilfelli Bud Powell. Powell var einn af þeim allra bestu í Bebopinu ásamt Parker, Dizzy og Monk. Powell heyrði greinilega eitthvað í spilamennsku hins unga Jackie og hjálpaði honum með því að sýna honum mismunandi hljóma og gefa honum leiðbeiningar um hvernig ætti að spila sig í gegnum þá með snarstefjun. Jackie var aðeins fimmtán ára þegar hann byrjaði að stúdera með Bud Powell, þá aðeins búinn að spila í um eitt til tvö ár. Jackie lærði ekki jazzþeoríu hjá Powell heldur hjálpaði hann honum að þjálfa eyrað. Hann var vanur að spila eitthvað á píanóið og fékk Jackie til að spila hljómafærslurnar þangað til hann lærði að spila frjálslega af fingrum fram í kringum þær. Eftir nokkurn tíma og miklar æfingar tók Powell Jackie með sér í Birdland klúbbinn og bauð honum upp á svið með sér til að spila. Það var mikill heiður fyrir Jackie, hann gleymdi því aldrei. Ómetanleg hjálp frá meistara, en síðar á ferlinum þegar Jackie var að spila og taka upp með Miles Davis frá 1951 til 1956, þá má vera að hið góða eyra Jackie hafi haldið aftur af honum, samkvæmt Davis. Að hinn ungi McLean hafi verið latur og að hann hafi að mestu spilað eftir eyranu. Hann þráskallaðist við að taka sér tíma í að læra vinsæla standarda sem voru hryggjarstykkið í dagskrá margra jazztónlistarmanna. 

Miles

Jackie fékk sitt fyrsta „gigg“ með Miles Davis árið 1950 og gerði stuttu síðar sínar fyrstu upptökur í stúdíói með Miles. Bud Powell hafði komið því í kring að Jackie fengi að spila með hljómsveit Miles í Birdland. Jackie, þó taugaóstyrkur væri, mætti í klúbbinn og spilaði sennilega nokkuð vel því að Davis bauð honum heim til sín daginn eftir. Hann spurði unga manninn hvort hann ætti einhver frumsamin lög niðurskrifuð og hvatti hann til að taka þau með sér. „Ég er ekki með þau skrifuð niður en ég get sýnt þér þau,“ svaraði Jackie. Vegna áherslunnar sem Bud Powell setti á tónheyrnina hjá Jackie þá var Jackie vanur, á þessum tímapunkti á ferlinum, að geyma tónverkin sín í höfðinu frekar en á blaði.

Þann 5. október 1951 átti Miles Davis pantaðan tíma í stúdíói til að gera upptökur fyrir Prestige útgáfufyrirtækið. Með honum voru Sonny Rollins á tenór, Walter Bishop Jr. á píanó, Tommy Potter á bassa og Art Blakey á trommur – og svo Jackie McLean. Jackie var yngsti maðurinn í stúdíóinu, um tvítugt. Upplifunin var ekki alveg áfallalaus fyrir Jackie. Þegar hann mætti í stúdíóið var það fyrsta sem blasti við honum Charlie Parker sitjandi fyrir innan glerið með upptökustjóranum. „Guð minn góður,“ sagði Jackie er hann sagði söguna mörgum árum síðar, „þetta gerði mig taugaóstyrkan, þú veist, bara að sjá hann því að ég dáði hann svo mikið“. Samkvæmt ævisögu Miles Davis var Jackie það taugaóstyrkur að hann gekk ítrekað upp að Parker og spurði: „Hvað er ég að gera hérna?“ Parker brosti bara og sagði honum að hann væri að spila mjög vel og að hann væri svalur. Parker áttaði sig mjög vel á hvað Jackie var að ganga í gegnum, hann hafði gert þetta allt sjálfur. Úr verður platan The New Sounds þar sem meðal annars má finna lag Miles, Dig.

Miles vildi taka upp Yesterdays og How Deep Is the Ocean en það voru vandamál, Jackie gat ekki fengið sólóin sín til að virka í þeim lögum og hann sagðist ekki kunna Yesterdays. Við þetta reiddist Miles snögglega og blótaði honum í sand og ösku. Ekki áttu hlutirnir eftir að batna eftir það. Þegar spurt var hvað væri að Jackie þá svaraði hann því til að þessi lög væru gömul, frá öðrum tíma og að hann væri ungur maður. Miles setti hann á sinn stað með því að segja honum að tónlist hefði engar períóður, tónlist væri tónlist. „Mér líkar þetta lag, þetta er bandið mitt, þú ert í bandinu mínu, ég er að fara spila þetta lag, þannig að þú lærir það og öll hin lögin, hvort sem þér líkar þau eða ekki. Lærðu þau!“

Mingus

Charles Mingus var stór karakter, bæði að vexti og í huga. Eina stundina gat hann verið eins og skrímsli og ógn við alla er stóðu í vegi hans, hina stundina var hinn ljúfasti að galdra fram ballöðu á bassann. Svoleiðis maður var öruggur um að lenda í andstöðu við fólk í kringum sig en hann var leiðtoginn sem gaf Jackie ansi margt til að hugsa um. Tónlist Mingusar var fersk og frumleg. Eitt af því sem hann þoldi ekki var þegar sólóistar kóperuðu aðra sólóista hundrað prósent og sólóuðu bara eins og sá sem verið var að kópera. Hann vildi að menn leituðu að sjálfum sér í sínum hljóm, að þeir reyndu að finna sig í sínu tómi þar sem þeir gætu tjáð sig á sinn einstaka hátt. McLean sagði að það hefði verið Mingus sem aðskildi hann frá Parker hljómnum, sem Jackie var búinn að tileinka sér, og sýndi honum að hann hefði sína eigin rödd. „Hvað snéri að saxófóninum, þá var ég sáttur að spila það sama og Bird, eða reyna. En Mingus sagði: „Maður, af hverju heldurðu áfram að spila þennan Bird hljóm? Er Jackie McLean ekki einhverstaðar þarna inni? Bird er búinn að spila þetta, maður. Bird er dauður núna.“ Til að byrja með var þetta allt of mikið fyrir ungan Jackie McLean sem dýrkaði Parker og honum var misboðið að Mingus skyldi pressa svona þungt á hann vegna þessa. En eins og Jackie orðaði það: „Mingus var með þetta, hann var alveg með mig í réttum fasa. Hann samdi lög sem höfðu enga hljóma og enga tóntegund.“ Ég spurði: „Í hvaða tóntegund erum við?“ Hann svaraði: „Allar tóntegundir eru réttar.“ Og ég sagði: „Hvað með hljómana?“ Engir hljómar… „Hann hjálpaði mér. Ég fann Jackie í gegnum þetta.“

Lífið með Mingus, alltaf erfiðleikum háð, var við það að springa þegar bandið fór í tónleikaferðalag og spilaði gigg í Cleveland, Ohio. Mingus byrjaði að gera grín að Bird frösunum hans Jackie í byrjun tónleikanna og hélt því áfram reglulega í gegnum alla tónleikana. Flestir bandleiðtogar tóku menn til hliðar og töluðu við þá einslega ef einhver vandamál voru til staðar, en ekki Mingus. Hann átti það til að springa fyrir framan áhorfendur. Stundum átti hann það til að ávíta áhorfendur fyrir að vera með of mikinn hávaða og einbeita sér ekki nógu vel að tónlistinni. Þetta var aðeins of mikið fyrir McLean og eftir tónleikana sagði hann Mingus baksviðs að hann væri að gefa honum sínar tvær vikur í uppsagnarfrest og síðan yfirgæfi hann bandið. Við þetta brjálaðist Mingus og gaf honum svo fast á kjaftinn að Jackie missti tvær framtennur. Á þessum tímapunkti hafði Jackie misst stjórn á skapi sínu og dró upp hníf. Hann sveiflaði hendinni og reiddi til höggs en einhver sló í höndina á honum þannig að Mingus hlaut aðeins minniháttar stungusár. Nokkrum árum síðar viðurkenndi McLean í blaðaviðtali að hann hefði verið mjög feginn að einhver hefði slegið í höndina á honum og þannig komið í veg fyrir mögulega alvarlegar afleiðingar. Mingus rak Jackie á staðnum og skildi hann eftir auralausan í Cleveland. Hann þurfti að veðsetja saxófóninn sinn til að komast heim. Jackie sagði síðar í blaðaviðtali að American Federation of Musicians hefði viljað kæra Mingus og reka hann úr félaginu, en McLean var ekki tilbúinn að bera vitni gegn honum. Það mætti áætla að samskipti þessara manna yrðu engin eftir þetta, en ári síðar bauð Mingus Jack að spila með bandinu sínu í Birdland-klúbbnum. Þeir hittust baksviðs og föðmuðust. Mingus sýndi honum örið og sagði: „Þú reyndir að drepa mig.“ Svo bauð hann Jackie í bandið á túr sem var að hefjast. Jackie spilaði með Mingus næstu fjóra mánuði.

Art

Það var Art Blakey sem náði að taka McLean af Mingus þegar hann gekk á hann eftir gigg og skammaði hann fyrir að spila með bassaleikaranum. Blakey spurði hann hvað hann væri að gera í bandinu hans Mingus. „Maðurinn gaf þér á kjaftinn! Þú ættir að fylgja mér að málum.“ Það var freistandi boð. Blakey var á leið til Pittsburgh með bandi sem samanstóð af píanóleikaranum Kenny Drew og bestu rhythmasveit á svæðinu á þeim tíma. Hann bauðst einnig til að kaupa nýtt horn fyrir Jackie, hann var að nota sax sem Mingus átti, hann átti ekki sinn eigin. Til að forðast málalengingar þurfti að beita ákveðnu undirferli. Blakey hringdi í hann morguninn eftir, fór með hann í bæinn, keypti handa honum nýtt horn og svo voru þeir farnir til Pittsburgh án þess að segja orð við Mingus. Mingus, brjálaður af reiði, fór heim til Jackie og barði á hurðina. Kona Jackie, Dollie, sagði honum að Jackie væri ekki þar og ef hann hætti ekki að berja á hurðina mundi hún hringja á lögregluna. Hún öskraði endurtekið að hann væri ekki þarna og Mingus öskraði endurtekið að hann vissi að hann væri þarna. Síðar sendi hann Jackie símskeyti þar sem hann tjáði honum að hann ætlaði að henda honum í austurána. „Þannig yfirgaf ég Mingus og flúði með Art,“ sagði Jackie í blaðaviðtali síðar.

Vinnan með Blakey og Jazz Messengers gerði Jackie kleift að blómstra sem fyrsta klassa Hard Bop saxófónleikara. Bandið sem átti eftir að vera starfandi næstu áratugi var tiltölulega nýtt árið 1956, aðeins önnur útgáfa af bandinu. Á þessum tíma samastóð bandið af Art Blakey, Jackie McLean, Bill Hardman á trompet, Sam Dockery á píanó og Spanky DeBres á bassa. Jackie tók upp með The Messengers nokkrum sinnum á tímabilinu en platan sem stendur upp úr, einfaldlega nefnd Hard Bop, var sniðmát fyrir nýja Hard Bopið sem var að verða til á þeim tíma. Ferskur hljómur nýja jazzins gekk gegnum hljómaskiptingarnar og bar með sér þau skilaboð að ný stefna væri fædd og að þetta væri rétta leiðin til að spila hana.

Jackie sagði síðar að til að geta spilað þessa tónlist þyrfti maður að hafa mikinn hraða, mikla orku og góða þekkingu á hljómaferlum svo að hægt væri að spila tónlistina rétt. Hann bætti við að í „háskóla Miles Davis“ hefði hann lært að leggja hart að sér og stúdera hljómaganga í þeim tilgangi að geta spilað frjálslega yfir þá. Hann lærði einnig að spila á píanó og varð góður í að spila standarda, eitthvað sem hann hafði forðast í langan tíma. Miles Davis var góður kennari en Mingus var sá sem gerði honum ljóst að hann þyrfti að leggja á sig mikla vinnu til að laga veikleika sína og hætta að spila eftir eyranu til að koma sér út úr vandræðum á tónleikum. 

Miles hafði bent Jackie á að ef hann vildi fá tilfinningu fyrir tónlistinni ætti hann að standa við hliðina á trommaranum. Þannig ákvað hann að standa hægra megin við Art þegar þeir spiluðu saman. Jackie sagði síðar að hann hefði getað fundið rhythma Arts hvar sem er á sviðinu því að hann var svo kraftmikill, eins og þruma. Blakey var að mati McLean besti bandleiðtoginn sem hann hafði starfað með og maður sem hann bar virðingu fyrir og dáðist að. Burtséð frá öllu öðru þá hefur hann lært mikið hjá Blakey um listina að stýra hljómsveit og hvernig ætti að koma fram við tónlistarmennina sem þú ræður í vinnu. Jackie sagði líka að hann hefði lært að vera fullorðinn. „Art var mjög öflugur einstaklingur sem sem hafði góðar hugmyndir um hvernig ætti að gera hlutina. Hann var með ákveðna heimspeki um hvernig ætti að reka hljómsveit og þú þurftir að gera þitt eða þér var skipt út. Það er alltaf einhver sem bíður á hliðarlínunni.“ Í því samhengi rifjar Jackie upp tónleika í Fíladelfíu þar sem Art bauð ungum trompetleikara að stíga á svið og spila með bandinu. McLean og Donald Bird, trompetleikari bandsins, mundu eftir ungum bráðþroska manni sem kom upp á svið. Á meðan ungi maðurinn blés upp storm á sviðinu gaut hann nokkrum sinnum augunum yfir til þeirra tveggja, McLean og Donald, og blikkaði þá. Nafn unga mannsins var Lee Morgan. Jackie benti á að Morgan hefði verið að gera grín að ástandinu. Hann vissi fullvel hvernig Blakey gerði þetta, Morgan var aðeins sextán ára þarna. „Donald var meistarinn á þeim tíma,“ sagði McLean, „Lee var ungur, en hann hljómaði ansi vel, þannig að þá var mögulega kominn maður á hliðarlínuna. Art var alltaf með svona hluti í gangi.“

Miles var stífur, Blakey bauð upp á lausnir á vandamálum hliðarmanna sinna og Mingus var mest krefjandi af þeim öllum. Mingus hvatti spilara til að spila sína eigin músík og leita að sinni innri rödd, það reyndist Jackie vel. „Charlie Mingus er erfiðasti bandleiðtogi sem ég hef unnið með,“ sagði Jackie í viðtali árið 1996. „Því að hann var mjög krefjandi. Hann krafðist þess að bandmeðlimir æfðu heima hjá sér marga klukkutíma á dag, þrátt fyrir að bandið spila reglulega á tónleikum.“ Það var ekki að ástæðulausu sem Mingus kallaði bandið sitt Jazz Vinnustofuna. Ef lagbútur var bandleiðtoganum ekki að skapi lét hann bandið spila hann aftur og aftur. Stundum spilaði bandið sama lagið aftur og aftur, allt kvöldið, fyrir framan langþreytta áhorfendur. Ef einhver í áhorfendaskaranum talaði of hátt átti sá hinn sami von á skömmum af hálfu Mingusar og kröfu um að hætta að tala. Jackie sagði að hann hefði sé Mingus í eitt skipti taka einstaklega háværan áhorfanda og fylgja honum að dyrunum og hent honum síðan út. „Þannig maður var hann,“ sagði Jackie.

Heimildir

Sugar Free Saxophone: The Life and Music of Jackie Mclean (https://www.abebooks.com/servlet/BookDetailsPL?bi=31402124498&searchurl=ds%3D20%26kn%3Dsugar%2Bfree%2Bsaxophone%26sortby%3D17&cm_sp=snippet-_-srp1-_-title1)

Jazz barónessan

Kathleen Annie Pannonica var nafnið sem faðir hennar gaf henni en yfirleitt var hún kölluð Nika. Hún fæddist í Bretlandi, inn í Rothschild-fjölskylduna, og var alin upp á herrasetrum víðsvegar um Bretland. Nika var með sína eigin þjóna frá barnsaldi, hún hafði meira að segja spotta inni í herberginu sínu sem hún gat togað í til að fá þjónustu; öll Rothschild-fjölskyldan var með slíka spotta. Hún var að mestu alin upp af þjónustufólki og þekkti foreldra sína þar af leiðandi ekki mjög mikið. Hún var einmana sem barn, átti enga vini, svoleiðis var ekki fyrir Rothschild-börn. Bróðir hennar, Victor, kynnti hana fyrir jazz. Það hefur verið um 1920, við upphaf swing-tímabilsins. Nika sótti í að heyra jazz hjá Victor, hann var mikill áhugamaður um tónlistina og safnaði jazzplötum í gríð og erg. Rothschild-fjölskyldan var einmitt þekkt fyrir að safna hlutum, pabbi Niku átti stærsta safn af uppstoppuðum framandi dýrum í veröldinni. Á þeim grunni var náttúrufræðisafn Bretland síðar byggt. Pabbi Niku hafði gefið henni nafn eftir fiðrildi sem hann hafði lagt mikið á sig til að ná, Pannonica.

Allar stúlkur Rothschild-fjölskyldunnar voru búnar undir að giftast ríkum og valdamiklum mönnum, það var hefð. Nika og Baron Jules de Koenigswarter voru gefin saman í Ameríku, nánar tiltekið á Manhattan, þann 15. október 1935. Tveimur árum síðar keyptu hjónin sautjándu aldar höll í Frakklandi sem þau bjuggu í um tíma.

Árið 1935 þóttist Nika þurfa að fara til New York til að sækja ráð hjá systur sinni Liberty. Það sem hún hafði raunverulega í hyggju var að hlusta og sjá með eigin augum þessa ótrúlegu tónlist sem kom úr útvarpstækinu heima hjá henni. Í Harlem Savoy danssalnum átti hún eftir að heyra Chick Webb og 16 ára Ellu Fitzgerald sem hafði gengið til liðs við Chick Webb sama ár. Hún sá einnig Teddy Hill og konung swingsins Benny Goodman. 

Eftir ferðalagið hélt hún heim og tók aftur upp þráðinn með eiginmanni sínum. Hún gerði mikilvæga persónulega uppgötvun í ferðinni; hún áttaði sig á því að maðurinn sinn væri frekar leiðinlegur, að því leyti að allt sem hann gerði  var skipulagt í þaula. Sem dæmi, þá hafði hún mjög gaman af því að fljúga með honum þegar þau kynntust fyrst en áttaði sig síðan á því að hann var allt of varkár, þegar hann varði miklum tíma í að fara yfir öryggisatriði fyrir flug. Hún sagði síðar í viðtali við Nat Hentoff: „Eiginmaður minn gerði allt eftir áætlun, með mér er það alls ekki auðvelt. Hver klukkustund var skipulögð frá því að við komum þangað til við fórum á næsta stað.“

París hentaði Niku vel enda var borgin skyldustopp hjá vel metnum tónlistarmönnum. Í París sá Nika Coleman Hawkins, Dizzy Gillespie, Charlie Parker, Duke Ellington og fleiri. 

Nika og Jules börðust saman í Afríku í seinni heimsstyrjöldinni gegn nasistum, þau voru bæði flugmenn. Nika elti Jules til Afríku þar sem þau skráðu sig bæði í frjálsa franska herinn. Jules var síðar ein af hetjum Frakka í stríðinu í Afríku. Saman eignuðust Nika og Jules fimm börn. Þann 8. maí árið 1945 tilkynnti vinur Niku, Winston Churchill, að stríðinu væri lokið.

Eftir stríð var framtíð hjónanna algjörlega í lausu lofti. Börnin, sem höfðu verið send til Ameríku, voru þar enn. Þjóðverjar höfðu sprengt heimili þeirra í Frakklandi. Jules var atvinnulaus og móðir Niku var nýlátin. Á friðartímum var hjónaband Niku afrit af barnæskunni. Sem gift kona var ætlast til þess að hún sæi um að skemmta, fræða og gefa af sér börn. Á því varð tímabundið hlé á meðan stríðinu stóð en nú var ætlast til þess að hún tæki upp sína fyrri iðju. Mörgum árum áður hafði frænka hennar varað hana við: „Ég ímynda mér að þú munir giftast bráðlega – þannig ættir þú að læra eins og fljótt er auðið er að þú ert ormur. Til að kona geti notið velgengni þarf hún að vera ormur.“ Nika var ekki efni í orm.

Jules var í álíka mikilli óreiðu og Nika eftir stríð, húsnæðislaus og atvinnulaus. Hann sótti um í utanríkisþjónustu Frakka og var ráðinn til starfa í Noregi árið 1947, þar sem Nika og börnin gátu loksins sameinast. Heimili þeirra í Noregi var Gimli-kastali í Osló en hann hafði verið heimili frægasta svikara Noregs í stríðinu, Vidkun Quisling. Fyrir Jules var ambassadorstaða í Noregi leið til þess að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Nika hataði fyrirkomulagið. Eftir tvö ár í Noregi var Jules boðin staða í Mexíkó sem hann þáði. Nika varð sífellt óhamingjusamari og örvæntingarfyllri þegar kom að sambandinu við Jules, hún var farin að leita að útgönguleið.

Eftir að hafa heyrt plötu Ellingtons, Black, Brown and Beige, var Nika sannfærð um að diplómatalífið væri ekki fyrir sig. Henni fannst að hún ætti að vera þar sem tónlistin væri, ekki í þessum diplómatíska „kúaskít“, eins og hún kallaði það. Ástandið versnaði bara í Mexíkó fyrir Niku og Jules, hún notaði tækifærið og varði meiri tíma í New York. Í einni slíkri ferð heyrði hún fyrir tilviljun tónlist sem átti eftir að breyta lífi hennar. 

Monk-Móbíllinn

„Ég var á leið minni til Mexíkó, 1948 eða 1949, og ég stoppaði til að kasta kveðju á Teddy Wilson á leið minni út á flugvöll.“ Teddy var einn af þeim sem sendi Niku hljómplötur og í þetta skiptið spurði hann hvort hún hefði heyrt um ungan og efnilegan tónlistarmann, Thelonious Monk, sem hafði stuttu áður gert sína fyrstu plötu. „Ég hef aldrei heyrt um Thelonious,“ sagði Nika. „Teddy valhoppaði í burtu til að finna plötuna og spilaði hana svo fyrir mig þegar hann kom til baka. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Ég hafði aldrei heyrt neitt í líkingu við þetta. Ég hlýt að hafa spilað hana tuttugu sinnum í röð. Missti af flugvélinni. Ég fór í raun og veru aldrei heim.“ Í áranna rás varð þessi saga að jazzþjóðsögu. „Hefurðu heyrt um brjáluðu barónessuna sem varð fyrir álögum eftir að hafa heyrt eitt lag?“ 

Nika heyrði melódíuna í ´Round Midnight en hún heyrði líka eitthvað órætt. Vinur hennar Val Wilmer útskýrir: „Frá sjónarhóli aðdáanda, þá verður tónlistin mjög persónuleg, líkt og hljóðfæraleikarinn sé að tala við þig einslega. Tónlistarmennirnir toga í þig til að segja þér sína eigin lífssögu, sína reynslu. Þeir eru að bera vitni á hljóðfærið sitt.“

Nika flutti að heiman með stæl; hún flutti inn í svítu á Stanhope-hótelinu með útsýni yfir Metropolitan-listasafnið, á jaðri Central Park. Hótelið var byggt árið 1929 eftir sniðmáti margra Rothschild-húsa. Gestir gengu inn í mikilfengleikann gegnum ítalskan inngang. Átjándu aldar lobbí í frönskum stíl með marmaragólfum og útskornum viðarþiljum á veggjum með 24 karata gulllaufblöðum brenndum inn í viðinn. Karlkyns gestum var uppálagt að klæðast jakkafötum með bindi og konur sáust sjaldan án hatta og hanska. Á hótelinu var ströng aðskilnaðarstefna, svartir fengu ekki aðgang nema inn um þjónustu-innganginn og hefðu ekki fengið að leigja herbergi eða vera á ferli í hótelinu.

Art Blakey var fyrsti tónlistarmaðurinn sem Nika tengdist rómantískum böndum. Hún keypti fyrir hann Cadilac og klæddi bandið hans upp. Margir héldu að Blakey hefði verið að nota hana en fyrir henni var hann skemmtilegur vegvísir um jazzheiminn. Hann kynnti hana fyrir tónlistarmönnum, klúbbum og fræddi hana almennt um tónlistina. Það kaldhæðna var að hún fann hvergi manninn sem samdi ´Round Midnight. Nika kembdi klúbbana í leit sinni að æðsta presti jazzins, en Thelonious Monk hafði misst kabaretkort sitt 1951-58, sem var forsenda þess að fá að spila á klúbbum á Manhattan. Monk hafði tapað kortinu sínu þegar hann var handtekinn með heróín. Eftir að honum sleppt úr fangelsi var hann atvinnulaus og blankur og lifði eins og fangi í sinni eigin íbúð. Hann og kona hans Nellie lifðu á launum hennar en slæm heilsa kom oft í veg fyrir að Nellie gæti unnið og þá voru þau upp á góðmennsku annarra komin.

Við fyrstu skoðun áttu Monk og barónessan ekkert sameiginlegt annað en ást á tónlistinni. Það var ólíklegt að sveitamaður eins og Monk hefði eitthvað við konu eins og Niku að segja; þau voru hvort frá sínum endanum félagslega og fjárhagslega. Nika hélt áfram leit sinni að Monk til 1954 en án árangurs, þá hélt hún heim til Bretlands til að íhuga framtíð sína. Hún þurfti að fara yfir líf sitt og vega það og meta. Nika stóð á fertugasta og fyrsta ári og var í raun heimilislaus, atvinnulaus, óráðanleg í vinnu með enga smá fortíð að baki. Með fimm börn var hún varla efni í eiginkonu. Fáir möguleikar stóðu henni til boða. Á meðan Nika velti fyrir sér framtíðarmöguleikum sínum fréttir hún að í vændum séu tónleikar Monk í París.

París var fullkominn staður fyrir fyrstu kynni Monks og Niku. Hún flaug til Parísar með píanistanum og vinkonu sinni Mary Lou Williams. Mary Lou var ein af fáum konum til að ná frama í karlægum jazzheimi og tók upp yfir 1000 plötur á ferlinum. Mary þekkti Monk og hafði hug á að kynna þau Niku. Þegar Monk komst á sviðið í París hafði hann reykt mikið af dópi sem var skolað niður með koníaki. Þegar tónleikarnir voru hálfnaðir arkaði Monk af sviðinu til að fá sér annan drykk. Gagnrýnendur, bæði breskir og franskir, hötuðu þessa tónleika Monks, þeir kölluðu þá „óvænta“ og „lágkúrulega“ og lýstu Monk sem „eins konar hirðfífli jazzins“.

Nika man kvöldið á aðeins annan hátt. Hún var bergnumin; Monk stóðst allar hennar væntingar og gott betur. Frá þeirri stundu breyttist líf hennar varanlega. Næstu tuttugu ár átti hún eftir að helga líf sitt Thelonious Monk, hún lagði tíma sinn og ást að fótum hans, hollusta hennar var við Monk. Að mati Niku var Monk fallegasti maður sem til var. Ef hann gekk inn í herbergi var það návist hans sem dómineraði, það sama átti jafnvel við þótt hann lægi út af í rúminu. Þau vörðu vikunni saman í París en að henni lokinni fór Monk heim til New York og Nika til Bretlands.

Nika sóaði engum tíma þegar hún kom heim. Hún leigði Royal Albert Hall sex sunnudaga í röð og hafði áform um að fá Monk til að spila fyrir fleiri áhorfendur en hann var vanur, hún vildi bera út boðskap Monks. Nika lagði töluverða vinnu í að ná málinu fram en á endanum varð hún af láta af áformum sínum því að ekki tókst að fá atvinnuleyfi fyrir Monk í Bretlandi, þrátt fyrir góðar tengingar Niku. Bæði Nika og Monk urðu fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna. Nika yfirgaf London og flaug til New York, hún átti ekki eftir að búa aftur í Bretlandi.

Nika mætti í hverfið hans Monks í New York á nýjum Rolls Royce með hlébarðaskinn á herðunum og sígarettu í munnstykki sem var allt of langt. Hvað fannst Nellie, konu Monks, um þessa fígúru? Stóð henni ógn af henni? „Hún var góður vinur okkar og við þurftum vini,“ sagði Nellie. Sonur Nellie, Toot Monk, hafði þetta um málið að segja: „Einhvers staðar á leiðinni áttu þær samtal, Nika og Nellie. Ég veit ekki hvað þær sögðu en þær ákváðu að þær myndu hugsa um hann saman. Frá því að ég var átta ára þá var fjölskyldan mín mamma, pabbi, systir mín og Nika.“ Síðar skipti hún Rollsinum út fyrir Bentley, hann var kallaður Bebop-Bentley því að Nika var sífellt að keyra svarta tónlistarmenn hingað og þangað um New York á bílnum.

Tónlistarmaður og félagi Monks, Hampton Hawes, lýsir týpískri ferð í Bebop-bílnum með Niku, Nellie og Monk niður sjöundu breiðgötu í New York: „Monk í góðu skapi, sneri sér að mér og sagði: „Sjáðu mig maður, ég er með svarta tík og hvíta tík,“ og svo lagði Miles Benzinum við hliðina á okkur með gluggann rúllaðan niður og kallaði með hrossarödd sinni sem var skorin niður eftir hálsskurðaðgerð: „Viltu spyrna?“ Nika kinkaði kolli til hans og sneri sér að okkur og sagði með sínum breska yfirstéttarframburði: „Í þetta skiptið trúi ég því að ég muni sigra motherfokkerinn.““

(Mynd af Bebop-Bentleynum má finna í þessari grein á Guardian frá 2012.)

Nika lét setja flygil inn í svítuna á hótelinu. Monk varði þar flestum dögum að spila og semja tónlist, hún fylgdist með og dáðist að snilligáfu hans. Þegar myrkrið féll þá var Bopbíllinn dreginn fram og keyrt í bæinn, oft til að ná nokkrum tónleikum sama kvöldið. Monk var fylgdarmaður og kennari í þessum ferðum. Þannig kynnti hann Niku fyrir vinum sínum, hjálpaði henni að skilja tónlistina. Básúnuleikarinn Curtis Fuller útskýrir: „Það voru margar limmur og stórar stjörnur – Eva Gardner, Frank Sinatra og svo framvegis. Þau sendu miða til að fá þig til að setjast við borðið sitt. Þegar barónessan kom inn og settist við sitt borð stoppaði allt. Hún var yfir þeim öllum. Þegar Nika gekk inn var eins og stórt gong hefði verið lamið, boom, og orðið barst, barónessan er hér. Spilaðu vel, barónessar situr á fremsta bekk.“ Hún lék hlutverk sitt vel.

Monk var vanur aðdáun kvenna, hann hafði lag á að láta þær hugsa um sig. Að Nika væri hvít og auðug hafði sína kosti en það sem skipti mestu máli fyrir Monk var að hún elskaði tónlistina hans. Eins og sonur hans Tod sagði: „Nika var þar þegar gagnrýnendur voru ekki á ná tónlistinni og helmingurinn af tónlistarmönnunum ekki heldur, en hún náði þessu. Það var mjög mikilvægt fyrir hana og fyrir hann. Hann elskaði hana fyrir það.“ Monk sagði um vin sinn: „Hún er ekki dómhörð, hún er til staðar, hún á smá pening sem er stundum gott að hafa aðgang að en það er ekki aðalatriði. Hún býr á góðum stað þar sem gaman er að vera. Hún getur keyrt mig á staði í Bentleynum, sem mér finnst gaman að keyra og hún er funky, fín dama.“ Síðar bætti hann við: „Hún er Rothschild, sem gerir mig ansi stoltan.“

Nika tjáði aðdáun sína á Monk með álíka einfaldleika. Hún sagði Bruce Richer: „Hann er ekki bara einstakur sem tónlistarmaður, hann er einstakur sem manneskja. Skrítið orð kemur upp í hugann þegar ég hugsa um hann. Hreinleiki. Það orð virðist passa honum eins og hanski. Hann er heiðarlegur án málamiðlana. Hann hefur andstyggð á lygurum og lýgur aldrei sjálfur. Ef svar við spurningu þýddi að hann myndi særa tilfinningar einhvers, þá myndi hann þagna; geta hans til að þaga var svo mikil að margir héldu að hann talaði aldrei. En þegar hann var í góðu tómi gat hann talað dögum saman, án pásu. Hugur hann eins beittur og rakvélarblað og hann hafði áhuga á öllu, frá flugi fiðrildisins til pólitíkur og stærðfræði. Hann var mesta fjörið í öllum heiminum. Hann hló þangað til þú fórst að grenja.“

Curtis Fuller, sem varði miklum tíma með þeim frá 1950 til 1970, dró saman vinskap þeirra; „Það voru engin merki um rómantíska aðdáun annað en einstaka koss á kinn.“ Annar tónlistarmaður spurði Monk hvort hann væri að sofa hjá barónesunni. Monk svaraði: „Maður, því skyldi ég gera besta vini mínum það?“

Bird

Þann 12. mars 1955 var bankað á hurðina á svítunni hjá Niku. Hún fór til dyra og fyrir utan stóð Charlie Parker, illa á sig kominn.  Nika bauð hann velkominn. Það var ákvörðun sem átti eftir að draga dilk á eftir sér, vekja upp margar spurningar og verða grundvöllur fjölda samsæriskenninga. Parker átti að vera á leið til Boston á tónleika, en hann var í skelfilegu ástandi. Hann hafði nýverið reynt að taka eigið líf með því að taka inn ofskammt af joði, eftir dauða dóttur sinnar Pree og skilnað við konu sína Chan. Vinur Niku, Ira Gitler, hafði séð hann fyrr um kvöldið fyrir utan Birdland. „Ég mætti snemma og sá að hann var að taka hvítar pillur, líklega kódín. Hann var í inniskóm því að fæturnir á honum voru bólgnir.“ 

Í bíómynd Clint Eastwoods, Bird, birtist hann, samkvæmt frásögn Niku, rennblautur fyrir utan dyrnar hjá henni. Hann leggst út af og horfir á sjónvarpið meðan hann gefur lækni færi á að skoða sig. Almenn skynsemi segir að atburðarásin hafi verið aðeins öðruvísi. Ef Parker var að nota heróín hefði hann farið í sársaukafull fráhvörf á næstu tveimur til þremur tímum. Með alvarlega lifrabólgu og magasár er nokkuð ljóst að Parker hefur verið mjög kvalinn.

Nika var í erfiðri stöðu því að hótelið hafði nú þegar hækkað leiguna hjá henni þrisvar til að reyna að fá hana út. Nika krafðist þess að svartir vinir hennar fengju að ganga frjálsir inn um lobbíið eins og aðrir viðskiptavinir hótelsins, hún tók ekki annnað í mál. Þetta skapaði mikil vandræði fyrir hótelið því að þar átti að vera viðhöfð aðskilnaðarstefna. Einnig var mikið um það að nálar og annað tengt dópneyslu fyndist á hótelinu eftir að Nika flutti inn.

Læknirinn sem skoðaði Parker var ekki hótellæknirinn. Nika fór framhjá honum og kallaði til sinn eigin lækni, Dr. Freymann. Læknirinn giskaði á að Parker væri um sextugt eftir skoðun. Hann var þrjátíu og fjögurra ára. Læknirinn spurði hann hvort honum líkaði sopinn. „Einn og einn sherrí fyrir svefninn,“ svaraði Parker. Það er ekki vitað hvaða lyf læknirinn skrifaði út fyrir Parker. Nika og dóttir hennar Janka, sem var á staðnum, stilltu Parker upp fyrir framan sjónvarpið og báru í hann hvert vatnsglasið á fætur öðru svo að hann gæti slökkt þorstann. The Dorsey Brothers Stage Show var nýbyrjað í sjónvarpinu. Þegar trúðarnir fóru að  juggla boltum, þá fór Parker að hlæja, honum sveldist á og svo dó hann. Nika sagði síðar: „Ég held að ég hafi heyrt þrumuklapp rétt í því sem Bird dó. Ég sannfærði mig síðar um að ég hefði ímyndað mér það, þangað til ég talaði við dóttur mína og hún sagðist hafa heyrt það líka.“ Þrumuklappið er nú í traustum höndum jazzþjóðsagna. 

Götublöðin fóru hamförum eftir atvikið. Líf Niku varð algjört helvíti í framhaldinu, hún var ítrekað stöðvuð af svörtum lögreglumönnum sem sögðu við hana: „Þú ert hvíta konan sem drap Charlie Parker.“ Hvítu löggurnar sökuðu hana um að vera konan sem hékk með blökkumönnum. Götublöðin skrifuðu hverja níðgreinina á fætur annarri um Niku. Hún gat ekki rönd við reist. New York var lítið samfélag á þessum tíma, það var ekki séns að fólk tæki ekki eftir hvítri konu á Bentley. Það vissu allir hver hún var. Nika borgaði umhyggju sína dýru verði.

Pannonica

Eftir að Nika flutti á Bolivar-hótelið fór hún og valdi stórkostlegt Steinway-píanó fyrir nýju svítuna. Þar samdi Monk lögin Brilliant Corners, Bolivar Blues og Pannonica. Hann eyddi öllum deginum þar að sögn Niku. Platan Brilliant Corners var tónlistarlegt framlag Monks til nýja vinar síns og innihélt lagið Pannonica.

Fáar konur urðu þess heiðurs aðnjótandi að fá Monk til að semja lag um sig. Ruby My Dear var tileinkað fyrstu ástinni hans, Ruby Richardson; Crepuscule with Nellie var ástarsöngur saminn fyrir konuna hans. Booboo var samið um dóttur hans Barböru.

Þetta var fyrsta hljómplatan sem Nika var viðstödd upptökur á og hún gerði meira en það; hún sótti tónlistarmennina og keyrði þá á æfingar. Á þessum tíma var hún skráð umboðsmaður fyrir tónlistarfólk, hún var með Horace Silver, Hank Mobley og Sir Charles Thompson á sínum snærum. „Fyrir mér,“ sagði Nika, „á umboðsmaður að vera senditík tónlistarmannsins sem ætti ekki að framkvæma skítavinnu. Tónlistarmaður ætti aldrei að þurfa að sitja inni á bókunarskrifstofu og reyna að selja sjálfan sig.“ 

Vistin á Bolivar-hótelinu stóð ekki lengi yfir, hinir gestirnir hötuðu endalausar „jamsessionir“  tónlistarmanna í svítunni. Nika færði sig til á Algonquin-hótelið. Hún sagði að þeir ættu mögulega að vera opnari fyrir snillingum, en Thelonious var einum of mikill snillingur fyrir þá. Hann hafði tekið upp á því að ganga um hótelið og opna hurðir til að leita að Nellie. Niku var vísað af hótelinu í framhaldinu. Hún leysti málið með því að leigja sér einbýlishús í New Jersey. Húsið var með útsýni yfir Hudson-ána og Manhattan. Í samanburði við Rothschild-húsin var nýja húsið hennar Niku hóflegt. Hún lét setja inn flygil fyrir Monk og svo fyllti hún húsið af köttum. Allir kettirnir fengu nafn jazztónlistarmanna og Nika mundi nöfnin á þeim öllum. Eitt sinn taldi dóttir hennar yfir 100 ketti, endanleg tala var eitthvað um 300 kettir. Hún lét setja upp sérhannaðan vegg í bílskúrnum svo að kettirnir myndu ekki rispa Bebop-Bentleyinn. Monk nefndi húsið „Catville“. Monk var alls ekki hrifin af köttum, hann hataði þá en hann elskaði Niku.

Skrítnir ávextir

Klukkan ellefu að morgni miðvikudagsins 15. október 1958 keyrði Nika út úr New York og inn í mikil vandræði. Aftur í baksæti Bop-Móbílsins sat tenórsaxafónleikarinn Charlie Rouse og í framsætinu Monk. Ástandið í bílnum var spennuþrungið. Þau höfðu lagt af stað seint og ólíklegt að þau næðu „soundchecki“ í Baltimore, hvað þá æfingum. Bæði Monk og barónessan voru óvön því að fara á fætur fyrir hádegi. Brottförinni hafði seinkað enn frekar þegar Monk krafðist þess að þurfa að máta nokkur jakkaföt og úrval af mismunandi höttum með. Monk hafði vakað þarna í um 55 klukkutíma samfleytt. Harry Colomby umboðsmaður Monks reyndi að fresta tónleikunum, á endanum féllst hann á að senda Monk ef Nika lofaði að missa hann aldrei úr augsýn sinni.

Nika skildi hve mikla merkingu Baltimore-tónleikarnir hefðu fyrir Monk. Hann var nýbúinn að fá kabarettkortið sitt aftur árið 1957. Hann hafði ekki verið á senunni í sjö ár, það var mikilvægt að vinna upp áhorfendur sem höfðu  tapast. Þau höfðu keyrt í um tvo tíma þegar Monk sagði fyrstu orð sín þann daginn: „Ég þarf að stoppa.“ Monk var með blöðruhálskirtilsvandamál sem gerði að verkum að hann átti erfitt með að ferðast langar vegalengdir, einnig voru langsetur við píanóið óþægilegar fyrir hann.

Þau voru stödd í Deleware, þar sem hlutirnir voru dálítið afturábak á þessum tíma. Nika leitaði að stað til að stoppa. Hún keyrði niður aðalgötuna í leit að stað en þeir voru allir með aðskilnaðarstefnu. Loks fann hún hótel með merki sem stóð á „Allir velkomnir“. Þar stoppaði hún og hleypti Monk út, svo lagði hún bílnum aðeins frá innganginum. Monk fór inn og fékk að nota klósettið en kom svo fram og bað um vatn. „Vatn!“ sagði hann háum rómi, nokkrum sinnum, þangað til hringt var á lögregluna.

Þjóðvegalögreglan stöðvaði þremenningana rétt hjá hótelinu, þar sem þau keyrðu í burtu úr bænum. „Stöðvaðu vélina fröken,“ sagði lögreglumaður er stóð við bílstjórahurðina. „Eigandi Plaza-hótelsins hringdi í okkur, sagði að stóri svarti gaurinn hefði verið með læti í lobbíinu.“ „Herra skrítni-hattur þarf að koma með okkur,“ sagði annar lögreglumaður sem stóð farþegamegin við Bebop-Bentleyinn. Monk sagði ekkert, sat bara þögull sem gröfin. Það leið ekki á löngu þangað til Monk var dreginn út úr bílnum með hálstaki, og út á götu þar sem hann var laminn með kylfum. „Passið þið hendurnar á honum!“ öskraði Nika, aftur og aftur. 

Þegar lögreglumennirnir leituðu í bílnum fundu þeir maríjúana í hanskahólfinu. Á þessum tíma var það sett í flokk með ópíum og heróíni. Að vera tekinn með maríjúana þýddi fangelsisdóm, það vissu þremenningarnir vel. Nika hikaði ekkert, hún tilkynnti lögreglumönnunum að hún ætti efnin, þrátt fyrir að hún vissi að langur fangelsisdómur gæti fylgt. Nika var tilbúin að hætta öllu fyrir Monk, því að hún elskaði hann.

Nika var fundin sek þann 21. apríl 1959. Hún var dæmd í þriggja ára fangelsi og til greiðslu þrjú þúsund dollara sektar. Eftir fangelsisvistina yrði henni ekið út á flugvöll og hún send heim, hún fengi aldrei að koma til Ameríku aftur. Dómnum var áfrýjað til hæstaréttar og tók þá við rúm tveggja ára bið eftir niðurstöðu. Næstu tvö ár hvöttu vinir og ættingjar hana til að flýja land og hefja nýtt líf í Bretlandi. Hún hafnaði því, fyrir henni snerist málið ekki um nokkurra dollara virði af maríjúana heldur um það hvað gerist þegar hvítt og svart fólk verður vinir.

Handtakan varð Niku innblástur til að aðstoða jazzsamfélagið. Hún ók Bentleynum inn í stórhættuleg hverfi og skildi hann eftir í gangi á meðan leitað var að einhverjum „ketti í vandræðum“. Klædd í pels og með perlur um hálsinn hljóp Nika í gegnum dópgrenin hvert á fætur öðru. Einu sinni eyddi hún nokkrum dögum í leit að píanóleikaranum Bud Powell, sem hafði drukkið allt hennar Rothschild-vín áður en hann fór niður í bæ til að ná sér í heróín. Hún fann hann illa á sig kominn á götuhorni, setti hann í rúm og gaf honum að borða. Það dugði ekki, Bud var dáinn nokkrum dögum síðar. Nika borgaði fyrir jarðaförina hans og líkvöku. Stundum var gæska Niku í praktískara formi; Lionel Hampton var einn af nokkrum tónlistarmönnum sem hún kenndi að lesa.

Málið var tekið fyrir í hæstarétti 15. janúar 1962. Vörn Niku snerist um að handtakan hefði verið gerð með ólögmætum hætti, að hún hefði ekki verið beðin um leyfi til leitar í handtösku sinni eða í bílnum. Á endanum féllst dómarinn á þau rök. Níka var frjáls ferða sinna.

Nika fylgdi Monk að málum alveg til dauðadags hans, 5. febrúar 1982. Hún bjargaði mörgum jazzaranum úr vandræðum, ótalmargar sögur eru til af henni að borga tryggingargjald til að fá heilu böndin leyst út úr fangelsi, eins og þegar kona Bud Powell lét lögguna loka manninn sinn og allt jazz messengers bandið inni í fangelsi í París, fyrir dópneyslu. 

Nika bjó með Barry Harris píanóleikara og köttunum sínum til dauðadags. Þann 30. nóvember 1988 missti jazzheimurinn einn sinn besta bandamann, Pannonica var flogin á brott. 

Fjölmörg lög hafa verið samin innblásin af Niku í gegnum tíðina:

Blues for Nica – Kenny Drew

Bolivar Blues – Thelonious Monk

Cats In My Belfry – Barry Harris

Coming on the Hudson – Thelonious Monk

Inca – Barry Harris

Nica´s Dream – Horace Silver

Nica´s Tempo – Gigi Gryce

Little Butterfly / Pannonica – Thelonious Monk

Tonica – Kenny Dorham

Og fleiri.

-Sigþór Hrafnsson

Heimildir

The Baroness – The Search for Rebellious Rothschild – Hannah Rothschild.

https://www.abebooks.com/Baroness-Search-Nica-Rebellious-Rothschild-Hannah/22286934739/bd

MONK! – Thelonious, Pannonica and the friendship behind a musical revolution – Youssef Dadudi

https://www.abebooks.com/servlet/BookDetailsPL?bi=31418635050&searchurl=kn%3Dthelonious%2BMONK%26sortby%3D17&cm_sp=snippet–srp1–title5

Myndir: Mynd af Niku (efst) fengin héðan. Aðrar myndir: Wikipedia Commons.

Lee Morgan V

Útspil

Snemma árs 1967 hitti Morgan konu nokkra að nafni Helen More. Þau hófu ástarsamband og það leið ekki á löngu þangað til Morgan var fluttur inn til hennar. Blakey minnist þess er þau hittust: „Lee hafði verið að nota dóp árum saman og orðið veikur og ákveðið að stramma sig af. Kona sem hann hitti tók hann inn á heimilið sitt og hjálpaði honum að berjast við fíknina. Hún var mun eldri en Lee og vildi giftast honum. Hún hjálpaði Lee að leysa út frakkann og trompetinn hans úr veðlánarabúllu sem Lee hafði veðsett fyrir heróíni. Morgan og Leroy Gary hafði verið hent út af hótelinu sem þeir voru á vegna vangoldinnar leigu. Þeir byrjuðu að „krassa“ í íbúð More en Gary var ekki lengi þar. Gary, sem More kallaði skordýr, hafði ekki áhuga á að hætta að nota heróín og lét sig því hverfa þegar Morgan hóf að láta renna af sér. Morgan skráði sig inn á endurhæfingarstöð í Bronx í byrjun árs 1968 og var í methadone meðferð til að halda aftur af þörfinni eftir það. More kvatti Lee til að vinna meira, til að taka ábyrgð á sínum eigin ferli. Hún hjálpaði með viðskiptahliðina, bókanir, að fá greitt fyrir tónleika, borga meðspilurum o.s.frv. Yfirráð hennar yfir fjármunum hans komu í veg fyrir að hann eyddi þeim í dóp.“

Morgan sagði Blue Note mönnum að hann væri tilbúinn að leiða nýtt session, aðeins þrem mánuðum eftir að hann tók upp The Sixth Sense. Það var og, en platan Taru kom ekki út fyrr en 1980, átta árum eftir dauða Morgans.

Morgan réði nýjan píanista, Cedar Walton, fyrir upptökur á næstu plötu hans, Caramba!, þrem mánuðum eftir Taru. „Mér finnst Cedar Walton vera minn píanóleikari eða að minnsta kosti sá sem ég vil hafa með mér þegar hann er laus. Ég spilaði fyrst með honum fyrir langa löngu í The Messengers. Síðan þá hefur hann þroskast á yndislegan máta. Hann er með sinn eigin skilning og snertingu fyrir hljóðfærinu sem er að skila honum þangað sem hann er. Hann er alveg indæll til að hafa á bak við sig í undirspili.“

Bassaleikari á Caramba! var Reggie Workman: „Við hittumst fyrst þegar ég var um 13-14 ára. Ég, hann og Archie Sheep uxum upp saman í Fíladelfíu. Við vorum í sama gagnfræðaskóla. Svo þegar hann kom til New York þá vorum við báðir í bandinu hans Arts árið 1964. Ég hef horft á Reggie gifta sig og ala börn og ég hef séð tónlistina hans vaxa samhliða því.“

Af saxófónleikaranum Bennie Maupin segir Morgan: „Ég heyrði fyrst í honum þegar hann var í áheyrnarprufu hjá Horace Silver, rétt áður en Horace réði hann. Hann hefur mikla aðlögunarhæfileika sem saxófónleikari, líkt og Joe Henderson. Annað sem mér líkar við hann er hæfileiki hans til þess að byggja sóló dýnamískt upp í spennandi hápunkt. Hann er einn af mest spennandi tenór spilurum sem ég hef heyrt í síðustu tvö ár.“ Síðar spilaði Bennie Maupin í bandi Morgans um tíma, þangað til Herbie Hancock réði hann í bandið sitt. 

Band Morgans hafði verið að bæta við sig vinnu jafnt og þétt; bandið hans hafði spilað eina viku á Slugs barnum í New York árið 1968, árið eftir spilaði bandið fimm vikur á Slugs og svo fjórar vikur árið 1970. Trompetleikarinn var kominn á skrið og hafði nóg að gera við að spila opinberlega í New York. Morgan hélt áfram að semja nýtt efni og spilaði hann á hornið af þrótti með ímyndunaraflið að leiðarljósi en dópneysla hans og breytt tónlistarlandslag takmörkuðu möguleika hans nokkuð.

Morgan byrjaði árið á að birtast sem hliðarmaður með Lonnie Smith og Larry Young, nokkrum mánuðum síðar, á plötu Reuben Wilson Love Bug, til að máta sig við nýmóðins smekk í tónlist. Á þessum tíma var jazz að færast yfir í Fusion og Funk, sérstaklega eftir útgáfu Miles á Bitches Brew árið 1969.

Um vorið 1969 hafði Morgan tryggt fleiri tónleika fyrir kvintett sinn sem hófst með viku á Slugs, viku þar á eftir á Village Vanguard ásamt öðrum skuldbindingum. Með allan þennan meðbyr bauðst Morgan svo að fara með kvintett sinn til Kaliforníu. Morgan fannst hann vera í stöðu til að samþykkja tónleika sem ári áður hefði verið of flókið eða of áhættusamt að takast á við. Hann hafði ekki komið vestur síðan sumarið 1965 með The Jazz Messengers. Að fara svo langt þýddi að dóptengslin voru ekki til staðar. Helen hvatti til ferðarinnar og gerði ráðstafanir fyrir ferðalagið. Hennar starf var að passa upp á að Morgan kæmi sér ekki í vandræði og að hann myndi standa við skuldbindingar sínar.

Bandið skilaði sér á austurströndina rétt fyrir byrjun Newport Jazz Festival. Morgan hafði ekki spilað á hátíðinni síðan 1960, þetta mundi verða síðasta skiptið fyrir Morgan. Aðalnúmerin á hátíðinni árið 1969 voru meðal annars Frank Zappa, Led Zeppelin og Sly and the Family Stone. Kvintett Morgans var settur á annan stað en aðaltónleikarnir voru haldnir. Hljómsveitir Lee Morgans og Charles Mingus skiptu með sér sviðinu í Cliff Walk Manor tvö kvöld í röð, 4. og 5. júlí. Jesse H. Walker á New York Amsterdam News birti eftirfarandi texta í blaðinu: „Ég fylltist viðbjóði á hátíðinni þegar ég þurfti að fara í Walk Manor klúbbinn til þess að heyra Lee Morgan og Charles Mingus spila. Bæði böndin voru frábær. Upplifunin var eins og að hlusta á frábæran jazz. Húsið var pakkað. Miles var þar til að sjá þá spila þann fimmta.“ Það að jazztónlistin væri spiluð á öðrum stað en á aðalsviðinu undirstrikaði hversu langt Newport hátíðin var tilbúin að fjarlægjast rætur sínar með því teygja sig í átt að rokk og popp tónlist. Það að eltast við stærri viðburði með fleiri áhorfendum og meiri peningum þýddi að sál hátíðarinnar hafði verið fórnað og jazztónlistarmennirnir voru komnir á hliðarlínuna.

Hægt hafði á lagasmíðum Morgans er leið undir lok sjöunda áratugarins, brunnurinn sem hafði gefið svo mikið var að þorna. Sporin sem hann þurfti að setja sig í til að semja og skrifa upp lög var ekki eins auðvelt að fara í. Morgan var með ritstíflu er mundi hafa áhrif á hann til dauðadags.

Kenny Sheffield trompetleikari var táningur á þessum tíma og heimagangur heima hjá Helen og Morgan. Þó að heimilislíf Morgans hafi róast mikið þá tapaði Morgan aldrei götuviti sínu. Kenny Sheffield minntist þess með ánægju hvernig hann og Morgan þvældust um götur Harlem inn á vafasamar búllur sem táningurinn Sheffield hefði forðast að öðrum kosti. „Hann var einhvers konar afleiðing götunnar, hann var ekki smeykur að hanga með gaurunum, þú veist hvað ég á við, á stöðum þar sem sumt fólk vill ekki fara. Við fórum niður í Harlem og heimsóttum mismunandi knæpur þar. Lee leyfði mér að halda á trompettöskunni sinni. Það var sama hvert við fórum, allir virtust þekkja hann. Við löbbuðum inn á einhvern stað og fyrsti maður sem sá hann virtist alltaf þekkja hann. Þá sagði Lee yfirleitt: „Hvað ertu með?“ Og gaurinn svaraði: „Ég er með smá gras.“ Sem Lee svaraði yfirleitt: „Láttu mig hafa smá af því og láttu lærling minn hafa smá líka.“ Þannig að núna er ég með þessar jónur á mér og við förum á annan stað, setjumst niður og fáum okkur drykk. Tölum við einhvern annan, hann lætur Lee hafa eitthvað og mig líka. Við fórum í gegnum Harlem með þessari aðferð. Þegar við fórum í lestina til að komast í Bronx, þá sagði Lee alltaf: „Hey Kenny, ertu með efnin?“ og ég svaraði játandi. Þá sagði hann yfirleitt: „Láttu mig hafa þau. Þú þarft ekki að vera að nota þessi efni.“ Ég var ungur, táningur, þú veist. Ef ég hefði verið handtekinn með öll þessi efni.“ Í þessum ferðum upplifði Sheffield ekki að Lee væri að plata peninga eða efni út úr fólki. Morgan reykti marijúana og notaði kókaín af og til, notkun hans á þessum efnum stýrði honum ekki lengur eða tók frá honum öll úrræði hans eins og áður.

Í gegnum árin sem Sheffield hafði þekkt Morgan var hann undrandi á gjafmildi hans. „Lee var örlátur, svo mikið að það kom niður á honum sjálfum.“ Fólk bað hann um lán, hann hikaði ekki og dró upp veskið og lét viðkomandi hafa peninginn. Ég vissi hvað það var, það var pæling tengd dópinu. En Lee vildi ekki spyrja spurninga, hann lét gaurinn bara hafa pening og við héldum áfram okkar samræðum. Með hjálp Helen More, nokkuð stöðugrar vinnu og methadone meðferðar þá var Morgan að ná tökum á fíkn sinni í byrjun 1969. Methadone er synthetískur ópíóði sem er stýrt og gefið gegn vottorði, gefur slökun gagnvart ofsafengnum fráhvarfseinkennum heróíns. Með réttri meðferð losnar sjúklingurinn alveg við einkenni á endanum.

Fyrir Morgan þýddi þetta að ná að komast nógu lengi yfir heróínlöngunina til þess að ná að byggja upp líf sitt aftur án dópsins. Að þurrka sig upp – var lengi sannfæring – en nú varð hann gagntekinn af því og margir til frásagnar um það. Eftir áraraðir af ófögrum uppákomum með Morgan, sofandi skólaus á gangstéttinni fyrir utan Birdland, sofandi á pool-borðum á knæpum, í skítugum jakkafötum utan yfir náttfötin sín, stelandi sjónvörpum úr lobbíum hótela til að ná sér í pening. Stöðugleiki Morgans var alveg skýr fyrir þeim er höfðu þekkt hann árin tíu þar á undan. Nýtt tímabil var að hefjast í lífi trompetleikarans. Tónlistarleg aðferðafræði þróaðist frekar, hann tók til við að kenna ungum jazzlærlingum og tók þátt í þjóðfélagslegum og pólitískum átökum á þeim mikla óróatíma frá 1969-72.

Eftir nýárstónleika á Club Baron lýsti George Coleman áhuga sínum á að yfirgefa band Morgans og stofna sitt eigið. Staðgengill Colemans mundi ekki aðeins fylla upp í tónlistarþarfir Morgans heldur stækkaði og víkkaði hann það svið. Benny Maupin sem hafði tekið upp með Morgan í fjögur skipti fyrir Blue Note á árunum 1968 og 1969, hafði alla hrifningu trompetleikarans. „Eftir átján mánaða túr með Horace Silver var ég kominn aftur til New York og atvinnulaus,“ sagði Maupin. „Ég hringdi í Lee og hann sagði mér að Coleman væri að hætta í bandinu til að stofna sitt eigið. Hann bauð mér starfið. Ég þáði það með þökkum og í framhaldinu fórum við strax að æfa bandið. Lee elskaði að spila enda voru æfingarnar hjá okkur alltaf skemmtilegar. Húmorinn hans var sá besti!“

Stuttu áður en Maupin gekk til liðs við hljómsveitina, hafði Morgan orðið fyrir „ófyrirsjáanlegum afleiðingum sem skildu hann eftir með sprungna vör og nokkrar mjög lausar tennur,“ eins og Maupin orðaði það. Mikið var spáð og spekúlerað í þessu: Jimmy Morgan trúði því að bróðir hans hefði rekið munninn á sundlaugarbarminn í sundlaugarslysi. Flestir orðrómar voru þó dekkri en það: Að lögreglan hefði barið hann fyrir að færa sig ekki, eins og í frægri senu árið 1959 þar sem Miles stóð fyrir utan Birdland, reiður dópdíler að rukka skuld eða afbrýðisamur eiginmaður að hefna sín vegna framhjáhalds makans með Morgan. Síðustu tvær skýringarnar eiga við það sem trompetleikarinn Jimmy Owens sagði um atvikið þegar hann varð vitni að því sem gerðist, fyrir utan Brooklin Appollo Theater. Hann og Morgan höfðu tekið leigubíl saman að staðnum. Þegar þeir hefði stigið út úr bílnum hefði árásarmaðurinn komið hlaupandi með stálrör og án aðvörunar lamið Morgan í andlitið með rörinu og síðan hlaupið af vettvangi. Maupin sagði: „Hann þurfti að láta víra tennurnar á sér saman með spöngum til að þær héldust á sínum stað. Til að koma í veg fyrir að vörin þvældist ekki í spöngunum þá þurfti hann að hafa munnstykkið á öðrum stað á vörunum en hann var vanur. Batinn var sársaukafullur og hægur. Mörg kvöld í röð var úthaldið ekki meira en svo að hann gat bara spilað eitt sett, svo var hann búinn, gat ekki meir það kvöldið.“ Sár á tungu, vörum eða tönnum getur verið erfitt við að eiga fyrir trompetleikara, sambærilegt fyrir píanóleikara væri að vera með þrjá putta saumaða saman. Skaði sem er nógu alvarlegur til að þurfa spangir hefði mjög auðveldlega getað endað ferilinn hjá trompetleikaranum. En Morgan tókst á við verkefnið af heilum hug. Maupin var innblásinn af hugrekki Morgans. „Það var á þessum tíma sem ég fékk hið frábæra tækifæri til þess að sjá hinn raunverulega Lee. Hann spilaði í gegnum sársaukann til að endurbyggja vörina, með tímanum vandist hann nýju stöðunni á trompetinum og óx að styrk. Vandamálið sem hefði getað endað ferilinn, varð hans mesti styrkleiki. Það var geggjað að sjá hversu mikið hugrekki hann hafði.“

Ásamt Maupin gekk Jymmie Merritt til liðs við hljómsveit Morgans ásamt Harold Mabern á píanó og Mickey Roker á trommur. Merritt spilaði á þessum tíma á rafmagnskontrabassa. Lærlingur Morgans, Kenny Sheffield, náði að heyra í bandinu á meðan hann var í fríi frá sjóhernum um mitt ár 1970. „Hljómur bandsins breyttist þegar Maupin kom inn. Hann var að spila á alla þessa saxófóna.“ Maupin var þekktur fyrir að spila á fjölda hljóðfæra, eins og tenór saxa, bassa klarinett og flautu. Morgan byrjaði á þessum tíma að spila á Flugelhorn. Flugelhorn er stærra en trompet og með dimmari og mýkri tón.

Morgan var skiljanlega mjög spenntur fyrir nýja bandinu sínu. Eftir að hafa spilað saman í aðeins nokka mánuði, hafði Morgan bókað túr á vesturströndina, í San Francisco og í vitanum á Hemosa Beach. Morgan samdi við Blue Note um að hljóðrita bandið í vitanum á Hemosa Beach fyrir sína næstu plötu. En það var fjöldinn allur af Morgan upptökum á hillunni hjá Blue Note sem áttu eftir að koma út. Plötuútgáfan fylgdi ekki þróun listamannsins eftir, það var þriggja ára misræmi á milli útgáfu og þess sem Morgan spilaði opinberlega. Þó að The Sixth Sense, Charisma og Caramba! séu klassískar plötur í dag þá voru þær ekki samtíma miðað við tónlist Morgans árið 1970. Þróun jazzlistamanns á þessum árum gat verið ansi mikil á þremur árum, í sumum tilfellum algjör viðsnúningur. Morgan hélt sig þó alltaf við sinn stíl en hélt áfram að breyta og bæta hann í gegnum tíðina. Viðræður Blue Note og Morgans skiluðu samkomulagi um að tónleikarnir yrðu teknir upp og að ef platan væri nógu góð, yrði hún færð fremst á útgáfulistann.

Lee Morgan Live at the Lighthouse kom út í apríl 1971 sem tvöföld plata er var tekin upp á tveimur kvöldum í vitanum á Hemosa Beach. Árið 1996 var efnið endurútgefið á geisladiski og þá með um hundrað mínútum af aukaefni. Í ágúst 2021 kom svo út endurútgáfa á heildarupptökum í vitanum, það voru átta geisladiskar samtals, frá mismunandi kvöldum. Niðurstaðan var byltingarkenndar breytingar miðað við útgáfur eins og The Gigolo, Caramba! eða The Sixth Sense. Útgáfan í vitanum færir Morgan fjær hefðbundnum hard-bop hljómaskiptingum og blús formi sem hann var svo vanur að nota.

Þarna kveður við nýjan tón á Lee Morgan plötu þar sem allir eiga ný lög nema leiðtogi bandsins. Speedball og Sidewinder voru einu lög Morgans sem bandið spilaði, þar á meðal tólf mínútna útgáfa þar sem Jack DeJohnette situr við trommurnar. Það er ljóst að Lee Morgan hafði sagt skilið við hard-boppið á þessum tímapunkti, hann var í leit að nýjum tónlistarævintýrum.

Þegar bandið kom til baka til New York var Benny Maupin boðin staða í nýjum sextett Herbie Hancock, sem var tilboð sem hann gat ekki hafnað. „Ég sagði honum [Lee] frá tilboðinu og að ég hefði áhuga á að taka því. Hann horfði beint í augun á mér og sagði einfaldlega, „Þú ættir að taka því.“ Það var þá er ég áttaði mig á því hversu sterk vinátta okkar var. Við elskuðum að spila saman og að ég væri að fara úr bandinu var sárt fyrir okkur báða.“ Maupin var náinn Morgan og Helen More og hélt bréfaskriftum við þau eftir að hann yfirgaf bandið. Þegar Herbie Hancock bandið kom við í New York var Lee alltaf fyrsta manneskjan sem Maupin hringdi í. „Við vörðum tíma saman í New York, borðuðum heima hjá Helen en hún var frábær persóna, mjög aðhaldssöm eiginkona og einstaklega góður kokkur.“

Við hlutverki saxófónleikara tók Billy Harper og gekk hann strax til liðs við bandið. Harper var tiltölulega nýr í jazzsenunni og í raun feginn því að fá inni í svo góðu bandi. Harper hafði komið upp í gegnum The Jazz Messengers áður en hann gekk til liðs við Morgan. „Ég var nokkuð nýr á senunni, þannig að ég var ánægður að geta spilað með honum. Hann vissi að ég hafði spilað með Blakey, þannig að hann hefur áttað sig á að ég mundi virka í bandinu hans.“

Leiðir Morgans og Harpers höfðu legið saman áður en ekki á hljómsveitarpallinum heldur í mótmælum, til að mótmæla að dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi, þar sem fjallað væri um svarta menningu, væri ekki á dagskrá. Ein slík mótmæli voru leidd af Rahsaan Roland Kirk, þar sem sextíu svartir jazztónlistarmenn komu saman í Merv Griffin Show, þar sem þeir þóttust vera áhorfendur. Þegar þrjátíu og fimm mínútur voru liðnar var gefið merki og stóðu þá allir sextíu upp. Sumir blésu í flautur og bjuggu til almennan hávaða á meðan aðrir nálguðust sviðið. Húsbandið reyndi að drekkja mótmælunum með því að spila hærra, en það virkaði ekki. Griffin og framleiðendur voru í sjokki, umsetnir af Kirk og Morgan og gegn eigin vilja hófu þeir að ræða að hafa meiri jazz í þættinum. Harper ávarpaði áhorfendur og útskýrði fyrir þeim ástæður mótmælanna. Morgan tók saman kjarna mótmælanna í grein er birtist í Down Beat: „Öldur ljósvakans eru í eigu fólksins og við erum hér til þess að dramatísera þá staðreynd. Jazz er eina raunverulega ameríska tónlistin en hversu oft sérð þú jazztónlistarmann fyrir framan myndavélina? Og við erum ekki að tala um jazztónlistarmenn er spila í húsbandinu.“

Á meðan Morgan kannaði nýjar tónlistarlendur og talaði sig út um óróann sem ríkti um 1970, þá súrnaði heldur ástandið heima fyrir. Helen, nærandi og gefandi í baráttunni við heróínfíkn hans var nú orðin áminning um lífið sem hann var að reyna að segja skilið við. „Lee var að fara í gegnum breytingar, hann var að losa sig við allt það neikvæða í lífinu,“ sagði Harper og gaf í skyn að Helen væri partur af því neikvæða. Kenny Sheffield, lærlingur Lee, minnist þess að tveimur árum áður hefðu þau oft verið ástríðufull hvort við annað í íbúð sinni í Bronx. „Lee var villtur, hann var hrekkjalómur,“ rifjar Sheffield upp. „Þegar hún [Helen] labbaði inn, fór allur leikur úr Morgan. Hún hélt honum í tékki.“ Donna Cox, systurdóttir Morgans, minnist Helenar ekki sem sambýliskonu hans, heldur meira eins og móður. „Það var eins og hún væri háð Lee, hún fór með honum allt sem hann fór. Hún var á öllum tónleikum í gegnum öll settin.“ Kenny Sheffield hafði svipaða sögu að segja. „Á öllum þeim tónleikum sem ég sótti, þar var hún.“ Billy Harper sagði: „Hún hugsaði um hann, hún var eins og hænsnamóðir.“

Eins og margir jazzleikarar var Morgan mjög meðvitaður um það að miðla þekkingu sinni til yngri kynslóða. Morgan lagði grunn að þekkingu næstu kynslóðar með því að gerast kennari á laugardögum í The Jazzmobile Workshop í Harlem. Roy Campbell trompetleikari sótti kennslu hjá Morgan. „Ég hitti Lee fyrst þegar ég var fimmtán ára. Ég var aðdáandi fyrst en stúderaði svo með honum í Jazzmobile Workshop. Hann lagði áherslu á hluti eins og að stúdera blús og rytmaskiptingar.“ Hugtakið rytmaskiptingar, „rhythm changes,“ vísar til lagsins „I´ve Got Rhythm“ eftir George Gershwin en það lag telst til sniðmáts fyrir hljómaskiptingar í jazzi. Óteljandi fjöldi jazzlaga notar hljómana úr þessu lagi en öll eru þau þó með mismunandi melódíum. Listi yfir lög er nota rytmaskiptingar: https://en.wikipedia.org/wiki/Rhythm_changes

Morgan fann sig ekki knúinn til þess að bóka stóra túra til Evrópu og Japan eins og Freddy Hubbard gerði en hann þurfti enn að spila af og til fyrir saltinu í grautinn. Með ekki svo góða stjórn á neyslunni og stanslausa viðveru maka var listalíf og einkalíf Morgans í viðkvæmu jafnvægi. Einn anginn af tónlistarlífi hans hjaðnaði með minni ástundun: lagasmíðarnar. Morgan hafði ekki skrifað eða tekið upp nýtt lag í rétt rúmt ár. Hann hafði ekki lagt inn neina tónlist til rétthafaskráningar síðan í byrjun árs 1969. „Honum var mjög brugðið því hann gat ekki samið lengur,“ rifjar Judith Johnson, vinur Morgans, upp. Johnson sem hafði faglega reynslu sem félagsráðgjafi og ráðgjafi í ávana- og fíkniefnum, gerðist óopinber ráðgjafi Morgans og trúnaðarvinur árið 1971. Eftir að sambandið við Helen fór að renna út í sandinn, þá eyddi Morgan minni tíma með henni og fór að reiða sig meir og meir á Johnson fyrir fleiri atriði en endurhæfingu.

„Hann [Lee] gæti hafa haldið að hann væri fastur í sömu Blue Note lúppunni, að spila sama efnið aftur og aftur,“ sagði Billy Harper. „Hann vildi komast út úr því [hard-bop] og var ekki að spila þannig lengur. Hann var að reyna að finna meira frelsi. Hann var ekki að reyna að spila eins og Eric Dolphy en hann var að reyna nýja stefnu.“ Morgan spilaði tónleika í og við New York. Hann setti upp túr fyrir kvintettinn sinn er fór til San Francisco, Los Angeles, Chicago og Detroit. Gagnrýnandinn Leonard Feather heyrði í bandinu á vitanum: „Morgan er enn tónlistarmaður með marga eiginleika. Ásamt meistaralegri spilamennsku á hljóðfærið, þá kemur hann mörgum í opna skjöldu með hæfni sinni; hann getur skipst á að spila óræða tónlist eins og lag Merritts Absolutions yfir línulega spilamennsku án áreynslu. Útkoman er eitt kraftmesta bandið og það mest spennandi í þessari tónlist.“

Nokkrum mánuðum síðar hjálpaði Billy Harper Morgan að finna nýja tónlistarstefnu í hljóðverinu. Í sinni fyrstu upptöku síðan í október 1969, setti Morgan saman áhugaverða grúppu fyrir upptökur 17. og 18. september 1971 fyrir Blue Note. Hann bætti við sinn venjulega kvintett – Harper, Mabern, Merritt og Waits með Reggie Workman á bassa, Grachan Moncur III á básúnu og Bobby Mumphrey á flautu. Með stærri hljómi uxu möguleikar til sköpunar til þess að freista þess að ná ferskri niðurstöðu. „Þetta er ein besta platan sem hann hefur búið til,“ sagði Moncur. „Hann var virkilega á sinni leið. Hann var virkilega að gera öðruvísi hluti á þessari plötu, vá.“ Helsti grundvallarmunurinn á þessum upptökum og öðrum sem hann hafði gert var notkun á rafhljóðfærum. Mabern spilaði bæði á píanó og rafpíanó í upptökunum og rafbassa Merritt var att gegn akkústískum bassa Workmans í útsetningum er skila mjög áhugaverðum niðurstöðum. Harper kom með tvö lög, Capra Black og Croquet Ballet sem bæði afhjúpuðu hina nýju, djörfu stefnu bandsins. Merritt átti lagið Angela, Waits átti Inner Passion Out og Mabern setti fram lagið In What Direction Are You Headed?

Morgan var yfir sig ánægður með niðurstöðurnar og leið eins og nú mundi almenningur fá smá sýnishorn af því hversu megnugur hann væri. Harper sá plötuna líka sem viðsnúning. „Þessi plata var hinn nýi Lee,“ sagði hann. Morgan átti ekki eftir að lifa til þess að verða vitni að útgáfu plötunnar.

Nokkrum dögum eftir áramótin 1972 sátu Morgan og bróðir hann Jimmy og spáðu í hvað nýja árið mundi færa þeim. Morgan trúði því að árið yrði gott fyrir hann eða slæmt, ekki eitthvað á milli. Jimmy spurði hann af hverju honum fyndist þetta. Hann svaraði því til að hann væri með sterka tilfinningu, að það væru margir þættir að spilast saman og að hann gæti ekki spáð fyrir um hvernig þetta færi. Morgan hafði nýlokið við að taka upp nýja plötu sem hann var mjög stoltur af og átti að koma út í júní eða júlí. Bandið hans hafði haldið mannskapnum síðasta árið og var að þróast hægt og sígandi í nýja átt. Þrátt fyrir ritstíflu hafði Morgan í hyggju að byrja að skrifa tónlist aftur og talaði um að hann langaði að semja svarta óperu.

Sambandið við Helen var orðið rússíbanareið af óæskilegum tilfinningum og almennu stressi og Morgan hafði í hyggju að slíta því. Samband hans við Judith Johnson hafði þróast og hann sá fyrir sér rómantíska framtíð með henni, frjáls frá dópneyslunni sem hafði plagað hann. Eftir að hann náði að losa sig við heróínið hafði hann fengið líkamleg og andleg verðlaun, svo mikil að hann hafði orð á því að hann mundi nú jafnvel hætta að reykja tóbak.

Árið byrjaði vel hjá bandinu, þeir áttu bókaða tónleika í sjónvarpsveri í þætti er hét Soul! Þátturinn var einskonar ljósvaka-svið fyrir svarta tónlistarmenn, leikara, húmorista og ljóðskáld. Þetta er eina upptakan af Morgan í sjónvarpi sem til er í lit.

Morgan sagði Helen frá áætlunum sínum og tók hún þeim afar illa. Morgan hafði haldið sig frá íbúðinni dögum saman án þess að útskýra fyrir henni hvað hann væri að aðhafast. Þegar þau hittust sauð upp úr undir eins. Það var skrifað í skýin, sambandið var búið. Helen var taugahrúga og vildi sem fyrst komast aftur til þess tíma er samband þeirra var sterkt. „Hún hafði gert svo mikið,“ sagði Billy Harper „Hún gat líklega ekki ímyndað sér að hann vildi ekki tengjast henni framar.“

Þegar kominn var tími til að mæta til vinnu á Slugs barnum þann 18. febrúar 1972, keyrðu Morgan og Johnson saman inn á Manhattan, með Morgan við stýrið. Það var snjór á götunni þannig að gangstéttin sást ekki á köflum. Morgan keyrði upp á gangstétt og klessti bílinn þannig að þau þurftu að skilja hann eftir. Enginn slasaðist alvarlega fyrir utan kannski eina eða tvær skrámur. Morgan sannfærði Johnson um að hún ætti að koma með sér í vinnuna og að hann mundi sjá til þess að bíllinn yrði fjarlægður daginn eftir.

Eftir að bandið lokaði síðara settinu, stóð Morgan við barborðið er Helen labbaði inn í klúbbinn. Hún hafði komið undir því yfirskyni að skila lyklunum hans Morgans en nærvera hennar var nóg til að koma af stað rifrildi þeirra á milli. Morgan varð reiður og hún líka. Hún spurði hann hvers vegna hann væri að kalla hana þarna niður eftir á meðan hann væri með hina konuna sína þar. Morgan leit út fyrir að vera þreyttur á henni og greip í öxlina á henni og labbaði með hana að hurðinni og sagði henni að fara heim. Hún yfirgaf Slugs sýnilega í uppnámi en hún gleymdi kápunni sinni. Augnablikum síðar, klukkan 2:20 eftir miðnætti, sneri Morgan við til að labba upp á svið til að byrja síðasta settið, í því er Helen stormar aftur inn. Stóra eikarhurðin sveiflaðist inn af miklum krafti og sílúetta Helenar sást í hurðinni. „Það var óhugnanlegt,“ sagði Harper sem horfði á atburðarásina frá sviðinu. „Þetta var eins og í vestra þar sem bardyrnar springa inn rétt fyrir uppgjör.“ Morgan snéri sér að henni, líklega til að halda rifrildinu áfram, þegar Helen dró upp .32 Harrington & Richardson byssu úr tösku sinni. Morgan stríddi henni og sagði henni að hún ætti að reyna að skjóta hann, að hún væri með byssuna en hann væri með skotin. Helen skaut einu skoti af stuttu færi. Kúlan fór inn um brjóstið, í gegnum lungað og endaði svo í hryggjarsúlunni á Morgan. Hann hrasaði og féll í gólfið á meðan brjóst hans fylltist af blóði sem byrjaði að leka út á gólf. Morgan missti strax meðvitund. 

Helen öskraði „Morgan!“ á meðan sjokkeraðir áhorfendur fylgdust með og áttu margir hverjir erfitt með að átta sig á því hvað væri á seyði. Bassaleikarinn Paul West var á svæðinu og fyrstur til að bregðast við. Hann veiddi byssuna úr höndum Helenar á meðan hún var enn í sjokki og horfði á lífvana líkama Morgans. Barþjónninn hringdi á sjúkrabíl en vegna veðurs var hann lengi á leiðinni, það hafði snjóað mikið. Morgan var færður meðvitundarlaus á Bellevue sjúkrahúsið og stuttu síðar úrskurðaður látinn. Ein af björtustu stjörnum jazzheimsins var látin aðeins 33 ára að aldri.

Þremur mánuðum síðar kom út platan The Last Session. Hún var allt það sem Morgan hafði hugsað sér og meira til, leitin að nýjum lendum hafði skilað meistaraverki!

Lokaorð Lee Morgans má finna í síðasta viðtalinu sem hann gaf: „Ef það væri ekki fyrir tónlist þá væri þetta land sprungið upp fyrir löngu síðan, í raun allur heimurinn. Tónlist er það eina sem spannar allar þjóðfélagsgerðir og tungumál. Tónlist er það eina sem vekur dauðan mann og heillar villta skepnu, án hennar væri þessi heimur helvíti á jörð!“

-Sigþór Hrafnsson

Heimildir: 

Lee Morgan

His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/

Delightfulee

The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee

Plötufrétt – Alpha Mist

Alpha Mist gefur út sína fimmtu sólóplötu, Variables. Samhliða plötunni er 45 mínútna videóverk er gengur alla plötuna og litar hana með einstökum blæbrigðum. Platan er mjög svo í stíl Alpha Mist, mjúkur jazz með flott hljómaflæði. Öll vinnubrögð á plötunni eru til fyrirmyndar, úrval frábærra tónlistarmanna skilar hér meistaraverki Alpha Mist fullkomlega!

– Sigþór Hrafnsson

Ungu ljónin

Árið 1960 var árið sem ungu ljónin settu mark sitt á. Platan The Young Lions kemur út 1960 og er hún skírskotun í bókina The Young Lions eftir Irwin Shaw. Aftan á plötuna er ritað: „Við lifum á tímum þar sem upphafning meðalmennskunnar er mikil. Á slíkum tímum geta unglingar orðið efnaðir á því að semja og flytja meðalgóð lög. Þegar varla læs „hillbilly“ með vafasama hæfileika gæti orðið stjarna með milljón dollara í laun, eða drengurinn sem snýr plötunum á fóninum fyrir táningana, og verður meiriháttar sjónvarpsstjarna fyrir vikið. Mörg okkar trúa því að slíkar aðstæður séu til staðar vegna þess að við höfum gefið eftir fyrir fjöldanum og stefnu hans.“ Þetta eru ígrundaðar pælingar sem eiga líklega vel við tímann, skrifaðar af Julian „Cannonball“ Adderley. Restin er áhugaverð lesning sem má nálgast hér: https://jazzprofiles.blogspot.com/2019/04/the-young-lions.html. Ungu ljónin á þessari plötu voru Wayne Shorter, sem samdi öll lögin, Lee Morgan, Frank Strozier – alto sax, Bobby Timmons – píanó, Bob Cranshaw – bassi, Louis Hayes  og Albert „Tootie“ Heath – trommur.

En hvar eru ungu ljónin árið 2023? Dauða jazzins hefur verið lýst yfir ansi oft frá því að Julian ritaði þetta, en jarðaförin alltaf auglýst síðar. Ungu ljónin í dag eru hingað og þangað, það eru svo margir sem koma til greina. Hér eru nokkrir sem kannski komast á listann. 

The New Jazz Underground eru þrír ungir strákar frá New York. Þeir eru hrikalega góðir spilarar með tímasetningar sem eru aðdáunarverðar. 

Ezra Collective er breskt jazz band með afskaplega jákvæða orku!

Yussef Dayes X Alfa Mist taka saman höndum og spila lagið Love Is The Message með gítarleikaranum Mansur Brown. 

Avishai Cohen Trio tekur lagið Shifting Sands Session. Bandið er frábærlega spilandi en sérstaka athygli vekur Roni Kaspi trommari, sem sýnir af sér ótrúlega flotta rhythma. Tekur Art Blakey „press roll“ eins og að drekka vatn!

Samara Joy er ung og upprennandi jazz söngkona. Hér með sína ótrúlega fögru rödd sýnir hún okkur hversu mikið vald hún hefur á henni.

– Sigþór Hrafnsson

Cannonball Adderley – Somethin’ Else

Þessi plata er ein af stórkostlegustu verkum jazzsögunnar. Á henni er valinn maður í hverju rúmi. Art Blakey á trommur, Hank Jones á píanó, Sam Jones á bassa, Miles Davis á trompet og Cannonball Adderley á sax. Miles Davis er hér í hlutverki hliðarmanns, sem var nánast óheyrt og var lítið um. Titillag plötunnar er lag eftir Miles. Titill lagsins, Somethin’ Else, er eins mikið réttnefni á lagi og hægt er að komast með það. Melódían er byggð upp á einfaldri þriggja nótna fraseringu sem er endurtekin af Adderley í keðjusöng. Úr verður ótrúlega rafmögnuð suða nótna er vekja í senn undrun og gleði hjá hlustandanum. Úr verður svo sterkur keðju-krókur að hlustandanum er einfaldlega landað eins og hverjum öðrum fiski á línunni. Útspilið á melódíunni er enn magnaðra, þegar aukinn kraftur færist í hana.

Útgáfan af Autumn Leaves er eins sú frægasta sem um getur. Bætt hefur verið við nýju upphafi er þræðir upp g-moll sexundarhljóm þangað til melódían dettur inn. Miles spilar melódíuna með einstakri næmni. Tímasetningar á frösum hans vekja sífellda undrun því þær eru svo stórkostlega réttar. Miles klárar melódíuna með mjög óvenjulegum rhythma upp hálf-heiltóna „diminished” skalann er hann sleppir síðustu nótunni út í tómið. Inn kemur Cannonball Adderley, það fyrsta sem maður tekur eftir er tónninn, hann er óvenjulega þykkur, svo mikið að það drýpur af honum sætur nektar sem maður fær aldrei nóg af. Afslöppunin í spilamennskunni er aðdáunarverð, hröðu frasarnir eru eins og hann sé að renna sér niður skíðabrekku, alveg áreynslulaust. Sólóið sjálft er fyrir löngu orðið goðsagnarkennt. Fjöldinn allur af vel metnum mönnum hafa tekið það í sundur á Youtube, allir eru þeir jafn undrandi. Fyrir nemanda í jazz, þá er þetta hið fullkomna sniðmát á jazzsólói, einhvað sem allir nemendur í jazzi ættu að setja sér að læra, utanbókar! Það inniheldur allt sem gott jazzsóló á að innihalda og svo aðeins meira. Það væri líkleg einhverskonar glæpur að reyna að lýsa þessu með orðum, það verður aldrei hægt, ekki einu sinni með ChatGPT.

Lagið Love for Sale eftir Cole Porter er í einstakri útgáfu þarna. Miles spilar melódíuna með sínum femíniska tón og hittir vel á það. Platan öll er sérstaklega vel heppnuð í alla staði.

-Sigþór Hrafnsson

Lee Morgan IV

Endurkoma

Eftir að hafa endurnýjað samning við Blue Note var fyrsta verk Morgans að ráða tónlistarmenn til verksins. Hann valdi Joe Henderson á tenór sax, Barry Harris á píanó, Bob Cranshaw á kontrabassa og Billy Higgins á trommur. Art Blakey hafði fengið boð um að spila en var upptekinn í verkefnum utanbæjar. Higgins var nýgræðingur í New York senunni um svipað leyti og Morgan dró sig út úr henni.

Morgan rifjaði upp síðar: „Ég heyrði mikið talað um Billy en ég vissi ekki hver hann var, kannski var það þegar Billy bjó í Los Angeles. Ég man eftir að hafa heyrt um hann þegar hann var í bandinu hans Ornette Coleman. Við fengum svo fyrstu tónleikana okkar saman í gegnum Al Lion. Ég hef mikið dálæti á honum. Hann er með mikinn þroska miðað við ungan aldur. Hann yfirspilar aldrei þannig að lúðrarnir drekkist en maður veit samt alltaf af honum.“

Þó að aðdáun Morgans á Higgins hafi farið vaxandi með árunum, þá var hann mjög ánægður með afraksturinn af þeirra fyrsta samstarfi. „Ég náði Billy inn, hann hafði ekki einu sinni séð tónlistina en hann spilaði þetta frábærlega og fór létt með það.“ Næstu ár áttu þeir eftir að vinna oft saman í stúdíói og túrandi með bandi Morgans.

Um Joe Henderson sagði Morgan: „Ég heyri fullt af áhrifum í honum, auðvitað heyri ég Sonny og Trane, smá Bird líka en það mikilvægasta er að hann er, að ég held, að finna sín eigin séreinkenni, stíl.“ Eftir upptökurnar sagði Lee um Henderson: „Nú þegar ég hef unnið með Joe, þá er ég fullur tilhlökkunar að vinna með honum aftur. Hann er mjög skilvirkur í alla staði. Kannski get ég fengið hann til að semja eitthvað næst.“

„The Sidewinder“ er „shuffle“ blús þema sem átti eftir að verða eitt eftirminnilegasta lag Morgans, það var samið í stúdíóinu og skrifað niður í snarhasti á klósettpappír. Cranshaw minnist þess að Morgan hafi haft sig afsakaðan til að fara á klósettið á meðan upptökum stóð á heimili Van Gelder. Upptökurnar höfðu gengið vel. Þeir höfðu tekið upp þrjú af þeim fjórum lögum sem voru tilbúin en það var ljóst að jafnvel með „Gary´s Notebook“ væri nægt efni til að fylla LP plötu.  Þegar Morgan hafði verið á klósettinu í tuttugu mínútur fór Cranshaw að velta því fyrir sér hvort væri í lagi með Morgan. Kannski hefði hann fengið sér dóp og sofnað. Stuttu síðar kom Morgan út af baðherberginu með nokkrar klósettpappírsarkir þar sem lagið Sidewinder hafði verið niður skrifað. Lagið var tuttugu og fjögurra takta blús með melódíu sem var auðvelt að læra.

Um lagið sagði Morgan: „Lagið setur mig í spor „sidewindersins“, þú veist, vondi gaurinn í sjónvarpinu. Það er til snákur sem heiti sidewinder en ég var að hugsa um vonda gæjann.“ Sidewinder var samheiti yfir bófana í kúrekamyndum frá 1950. Þáttunum The Riflemen var sjónvarpað frá 1958 til 1963 sem gætu hafa verið innblásturinn að titlinum. The Riflemen voru gríðarvinsælir þættir og var einn þáttur í síðustu seríunni sem bar titilinn „The Sidewinder“.

Morgan sýndi aukinn þroska í bæði lagasmíðum sínum og spilamennsku. The Sidewinder varð söluhæsta platan á ferli Morgans, þar sem spilamennska hans var með því betra sem hann hafði boðið upp á.

Eftir upptökurnar fór Morgan til Fíladelfíu og spilaði viku með Jimmy Heath. Þeir lokuðu með tónleikum um áramótin 1963. Með peninga í vasanum eftir Blue Note upptökurnar og viku með Heath, þá var Morgan ekki að leita að vinnu. Árið 1964 eyddi hann fyrstu sex vikunum á Manhattan í að slæpast, skjóta sig með heróíni og semja tónlist. Þó að ástand hans hafi versnað á árunum 1962 og 1963, þá virtist hann ná að halda betur utan um neyslu sína eftir meðferð. Hann var að einbeita sér að næstu upptökum í stúdíói fyrir Blue Note, lög sem voru flóknari en nokkuð sem hann hafði gert áður.

Fyrir næstu upptökur hafði Morgan svipað frelsi til að ráða þá sem honum þóknaðist eins og á The Sidewinder. Það átti eftir að leiða til persónulegustu og  metnaðarfyllstu plötu sem Morgan hafði gert, „Search for the New Land“. Titillinn og merkingin hafði sérstaka þýðingu fyrir Morgan. Skrifað í miðri menningarbyltingu og aðeins mánuði eftir að Kennedy forseti var tekinn af lífi í Dallas þá var „Nýja land“ Morgans land jafnræðis, land frjálst frá rasisma og mismunun. Morgan hafði aldrei áður sett fram list sína í svo framsæknu og sósíalísku formi, jafnvel pólitísku. Hann réði Wayne Shorter og Reggie Workman úr The Jazz Messengers og svo þrjá fastaspilara hjá Blue Note, þá Herbie Hancock, Billy Higgins og Grant Green gítarleikara. The Sidewinder var frægari plata en þetta „session“ átti eftir að skapa einhverja þá fallegustu og best úthugsuðu tónlist sem Morgan átti eftir að setja út á ferlinum. Titillagið er epískt í mjög óvenjulegu AB formi, byrjar í 4/4, fer svo í 6/4 eftir tvo takta, skiptir á milli 4/4 og 6/4 nokkrum sinnum áður en það sest í 4/4 í nokkra takta en svo kemur B kaflinn sem er allur í 3/4.

Þrátt fyrir metnaðarfullar plötuútgáfur, þá setti trompetleikarinn leiðtogahæfileika sína á ís í byrjun 1964 og hóf að leita sér að fastri vinnu. Af einskærri tilviljun hafði Freddy Hubbard gefið út yfirlýsingu, tíu dögum eftir að hann kláraði að taka upp plötuna Free for All með The Jazz Messengers, um að hann væri að fara að yfirgefa hljómsveitina og stofna sitt eigið band. Reggie Workman sem spilaði með Morgan á Search for the New Land, lét hann vita að staða trompetleikara í bandinu væri laus. Morgan hoppaði á tækifærið. Þó að hann miðaði hærra en að vera hliðarmaður í bandi þá kom tækifærið á hentugum tíma. „Ég hef alltaf viljað leiða mitt eigið band,“ viðurkenndi Morgan. „Jimmy Heath og ég prófuðum einu sinni. Við unnum kannski tvær til þrjár vikur samfellt en svo ekkert í tvo til þrjá mánuði, þannig að ég held mig við Art í bili. Enginn vinnur meira en hann og maður fær næga athygli með því að vinna með The Messengers. Blakey var með um mánaðarlangan túr, skipulagðan í Kaliforníu sem mundi byrja þann 27. febrúar á Shelly´s Manny Hole í Los Angeles. The Messengers var mjög frábrugðið band frá því sem það var þegar Morgan yfirgaf bandið sumarið 1961. Shorter og Blakey voru þar enn en Reggie Workman hafði komið inn fyrir Merritt, Cedar Walton kom í staðinn fyrir Timmons á píanó og Curtis Fuller hafði verið fastráðinn sem básúnuleikari bandsins.

Í apríl fóru Morgan og Shorter að vinna í öðru Blue Note verkefni en það var fyrsta sólóplata Wayne Shorter fyrir útgáfufyrirtækið. Shorter, líkt og Morgan, hafði stuttu áður skrifað undir samning við Blue Note. Þann 29. apríl mætti bandið í Van Gelder stúdíóið en í því voru tveir úr frægu bandi John Coltrane, McCoy Tyner píanisti og Elvin Jones trommari. Þessar upptökur gáfu af sér stórkostlega plötu Shorters og titillagið algjör meistarasmíð. Melódían í laginu Night Dreamer snýr frábærlega út úr Óðnum til gleðinnar eftir Beethoven og verður úr stórhættulegur krókur sem húkkar alla hlustendur.

Morgan hafði verið mun reglusamari eftir meðferðina en eftir endurkomuna í The Messengers þá tók við sama munstur og áður. Á meðan upptökur á Night Dreamer fóru fram var Morgan uppi á hótelherbergi í Fíladelfíu að undirbúa sig fyrir konsert þegar hann sprautaði sig með heróíni og missti meðvitund. Þegar hann féll, rakst höfuðið á honum í olíukyntan ofn og hann lá við járnið meðvitundarlaus í nokkurn tíma. Það var ekki fyrr en nokkru síðar og til happs fyrir Morgan, er Shorter ætlaði að athuga með vin sinn, að hann fann hann meðvitundarlausan liggjandi á gólfinu. Það blæddi úr höfðinu á honum og herbergið angaði allt af brennandi húð. Ljósmyndir sem teknar voru við upptökur á plötunni Night Dreamer, síðar í vikunni, sýna Morgan bundinn um höfuðið eftir atvikið. Áverkarnir skildu eftir varanlegt sár. Þar sem höfuðið hafði legið á ofninum, þar mundi ekki vaxa hár framar. Það er ómögulegt að ætla hverskyns sársauka Morgan hefur verið að upplifa eftir þetta en það er ekki að heyra á upptökum á Night Dreamer að þar fari þjakaður maður.

Árið 1964 fór jazzheimurinn í gegnum meiriháttar breytingar. Kannski var ein sú stærsta að Birdland sem nefnt var eftir Charlie „Bird“ Parker, tilkynnti að þeir mundu ekki lengur bjóða jazzbönd velkomin, heldur væri það rock´n roll og diskó sem væru númer dagsins. Þó að bransinn væri að fara í gegnum meiriháttar breytingar þá var ein leið örugg fyrir menn eins og Morgan, hljóðverið. En með aðeins eina plötu eftir á samningi sínum við Blue Note, þá var það ekki nóg til að viðhalda ferlinum til lengri tíma. Fullur af nýjum þroska úr spilamennsku og lagasmíðum réð Morgan band og hóf æfingar til að uppfylla lok samnings síns við Blue Note. Trompetleikarinn hafði aldrei áður lagt sig jafn hart fram og við upptökurnar á Tom Cat. Fyrir Tom Cat dagsetninguna réð hann félaga Fuller og Blakey, húsbassaleikara Blue Note Bob Cranshaw, alto saxleikara Jackie McLean og æskuvin sinn McTyner. Titillagið opnar plötuna með dularfullum og seiðmögnuðum bassa sem rennur saman við lúðrana á afskaplega áhrifaríkan hátt. Platan nær líklega hápunkti sínum í laginu Twice Around þar sem Curtis Fuller fer á kostum í fyrsta sólói, sóló Jackie McLean þar á eftir er engu lakara en það hefur vakið eftirtekt að sóló McLean byrjar á sömu nótu og Fuller hættir á.

Blue Note gaf út The Sidewinder í júlí 1964 með týpískri, ódýrri auglýsingaherferð. Platan fór vel af stað, var spiluð mikið í útvarpi. Hún seldist svo hratt að  hillur tæmdust hraðar en Blue Note menn gátu fyllt þær. Í byrjun október, aðeins tveimur mánuðum eftir útgáfuna var The Sidewinder í 135. sæti á Billboard vinsældalistanum. Það var ekki óheyrt að jazzplata næði inn á listann en til að ná þessum hæðum þurfti þá að vera söngvari, eins og Getz/Gilberto sem hafði verið á listanum í 19 vikur þegar Morgan datt inn á hann. Viðbragð Blue Note var að setja meira fé í auglýsingar, „Nýja hitt-platan eftir unga trompetleikarann frá Fíladelfíu, Lee Morgan. The Sidewinder: Uppáhald jazzaðdáenda út um allt.“ The Sidewinder bankaði upp á sem 100. vinsælasta plata landsins með því að ná 101. sæti. The Sidewinder hlaut mikið lof gagnrýnenda og var því ausið á Morgan í gegnum blaðagreinar. Salan í byrjun nóvember skaut laginu inn á topp 100, upp í 89. sæti. Viku eftir viku reis platan á listanum: 79, 66, 60, 52, 44 til 35 í síðustu viku 1964.

Um velgengni The Sidewinder sagði Morgan: „Hún hefur haft mikið að segja. Hún kom á réttum tíma fyrir mig, á tíma sem ég virkilega þurfti eitthvað. Ég hafði ekki verið á svæðinu í dálítinn tíma en þetta var guðsgjöf að fá þetta í hendurnar. En þetta er allt frekar erfitt í Bandaríkjunum. Knæpueigendur segja að tónlistarmenn biðji um of mikla peninga fyrir að spila. Útgáfufyrirtækin segja að fólk sé ekki að kaupa plötur en sé að fara á klúbbana. Þessi klassíska saga, allir að búa til pening nema tónlistarmennirnir.“

Um mitt árið 1965 voru The Jazz Messengers bókaðir á túr í BNA. Morgan lét ekki sjá sig og var hvergi hægt að finna. Hann hafði sagt skilið við The Messengers og kosið í staðinn að einbeita sér að tilvonandi upptökum. Morgan hafði fengið nóg af því að túra. Hann fann sig án fastrar viðveru í hljómsveit eða sem sólóisti. Lifði trompetleikarinn á höfundarlaunum og „session“ vinnu. Hann leigði sér herbergi á hóteli í miðbænum og skiptist á að hanga yfir engu og að dópa sig. Morgan þurfti ekki að hafa áhyggjur af litlu vinnuframlagi sínu, þar sem hann var samningsbundinn að taka upp tvær plötur til viðbótar fyrir árslok.

Í september fór Morgan í stúdíó og tók upp plötuna Cornbread með svipað gengi og hann hafði notað á Search for the New Land. Þar má finna frægustu ballöðu Morgans, Ceora. Einnig er þar lagið Our Man Higgins sem er tileinkað trommaranum Billy Higgins. Þar er einstök tónsmíð úr heiltónaskalanum sem Billy Higgins heldur meistaralega saman með rytma sínum. Laglínan kemur beint úr heiltónaskalanum en í sólóum er því skipt á milli heiltóna og dúrskala. Higgins hafði sýnt einstaka fjölhæfni árið 1965 þegar hann spilaði með jazztónlistarmönnum úr mjög ólíkum áttum en samt alltaf á hæsta kaliberi. Higgins var einn af uppáhaldstrommurum Morgans, enda er hann á flestum plötunum hans.

Árið 1965 var umbrotaár fyrir jazz. Birdland lokaði, aðrir klúbbar í New York skáru niður jazz, þeim var breytt í rokkklúbba eða útilokuðu jazz alveg. Tónleikar á leikvöngum voru að byrja og voru nýjabrumið í tónlistarflutningi, rokkararnir náðu að nýta sér það. Stöðunum fækkaði mikið og var baráttan því meiri um þá staði sem eftir voru.

Morgan tók upp fjórar plötur fyrir Blue Note í eigin nafni árið 1965. Cornbread og Infinity, þar sem Morgan státar af fjórum nýjum lögum. Þar standa upp úr titillagið, Growing Pains (Vaxtarverkir), og Zip Code, einstakar tónsmíðar með heitum sólóum þar sem Jackie McLean fer á kostum ásamt öðrum. The Rumproller og The Gigolo eru hinar tvær. Morgan hefur verið ansi duglegur að semja nýja tónlist árið 1965 því í byrjun þess árs margfaldaðist skráning á verkum eftir Morgan sem fengu höfundarrétt. Enn í dag er fjöldinn allur af lögum eftir Lee Morgan sem skráð eru en enginn hefur heyrt, nema Lee. 

Árið 1966 gerði Morgan þrjár plötur: Delightfulee, Charisma og The Rajah.

Í byrjun 1967 bjó Morgan á hóteli í miðri Manhattan ásamt vini sínum Leroy Gary. Þeir höfðu verið mátar í gegnum árin og sérstaklega þegar til var dóp. Lagið „Gary´s Notebook“ var samið um Leroy. Þegar Lee og Leroy voru annars vegar, þá var yfirleitt von á meiri heróínneyslu í túrum og öðrum tengdum vandræðum. Í apríl tók Morgan upp Sonic Boom fyrir Blue Note. Ekki var mikið af vinnu í boði, Morgan eyddi þremur mánuðum án vinnu en næsta verkefni hans voru upptökur á The Procrastinator fyrir Blue Note. Með honum voru Wayne, Herbie, Ron Carter, Billy Higgins og Bobby Hutcherson á víbrafón. Platan kom ekki út fyrr en fjórum árum eftir dauða Morgans, 1976. Útgáfufyrirtækið var með fjölmargar upptökur eftir Morgan sem höfðu ekki verið gefnar út um mitt ár 1967. Af tíu nýjum útgáfum Blue Note árið 1966 var Morgan á fjórum af þeim: Art Blakey – Idestructible, Joe Henderson – Mode for Joe, Hank Mobley – Dipping og á sinni eigin Search for the New Land. Stuttu eftir þetta birtist The Gigolo, Cornbread og Delightfulee í plötubúðum.

Morgan fór í stúdíó 10. nóvember 1967 til að taka upp The Sixth Sense. Með honum voru Frank Mitchell á tenór sax, Jackie McLean á alto sax, Cedar Walton og Harold Mabern á píanó, Victor Sproles og Mickey Bass á bassa og Higgins á trommum. Platan kom út 1970 með sex lögum, þar af voru fjögur eftir Morgan. Titillagið rennur ljúflega í gegn, þar næst Short Count þar sem leikurinn færist upp á nýtt stig, spennuþrungið lag með mögnuðum sólóum. Anti Climax er annað magnað lag á The Sixth Sense.

Þremur vikum síðar var Morgan í upptökum með McCoy Tyner á plötu sinni Tender Moments, þar sem hann minnist félaga síns John Coltrane sem hafði dáið í júlí 1967, með laginu Mode for John. McCoy heiðraði vin sinn Morgan með lagi um hann er hann nefndi Lee plus three. „Þetta er einhverskonar nostalgía, óður til eldri tíma þegar ég og Lee uxum úr grasi og spiluðum saman í Fíladelfíu.“ Þetta session var Morgan mikilvægt því hann hitti í fyrsta skipti Benny Maupin. Saxófónleikarinn frá Detroit gekk til liðs við Morgan tveimur árum síðar.

Um svipað leyti hóf Morgan ástarævintýri með konu að nafni Helen More. Það leið ekki á löngu þangað til Morgan flutti inn í íbúð sem hún leigði í Bronx. Helen átti eftir að hafa veruleg áhrif á líf Lee Morgans, bæði til góðs og slæms, svo mikil að það mun aldrei gleymast.

-Sigþór Hrafnsson

Heimildir: 

Lee Morgan

His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/

Delightfulee

The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee

Hard Bop: Jazz and Black Music 1955-1965

https://www.goodreads.com/en/book/show/134182.Hard_Bop

Hard Bop Academy: The Sidemen of Art Blakey and the Jazz Messengers

https://www.goodreads.com/book/show/1117054.Hard_Bop_Academy

Lee Morgan iii

Ræsið

Síðla sumars 1961 birtust fréttir af því að Lee Morgan mundi yfirgefa The Jazz Messengers til að stofna sitt eigið band. Fréttir birtust í Downbeat jazz-tímaritinu þann 31. ágúst 1961 um að bandið væri næstum fullskipað með Clifford Jordan á sax og Lex Humphries á trommur. Sannleikurinn var hins vegar allt annar. Morgan var ekki í neinni stöðu til að koma sér úr hlutverki „sideman“ í hlutverk bandleiðtoga. Þrátt fyrir vinsældir hans og þróun sem tónskálds, þá hafði heróínneysla hans farið endanlega úr böndunum. Árið 1961 bætti hann verulega í neysluna þannig að hún varð það eina sem Morgan gat sinnt, neyslan tók yfir allt hans líf. Í stað þess að semja nýtt efni, reyna að verða sér út um tónleika eða stunda æfingar, þá kaus Morgan að eyða öllum stundum í að ná í dóp og dópa, frá morgni til kvölds.

Sumir, eins og Art Blakey, náðu að hafa stjórn á inntökunni. Lee var ekki einn af þeim. Lee hafði mögulega haft smá stjórn í byrjun en eftir því sem hann varð háðari neyslunni þá varð þetta alveg ómögulegt. Þegar hann hætti hjá Blakey, þá var hans fyrsta verk að veðsetja trompetinn sinn fyrir heróín. Á meðan Morgan brenndi upp úrræði hjónanna, lagði Kiko eiginkona Morgans á ráðin um að þau myndu flytja sig í heimabæ Morgans, Fíladelfíu, og fá aðstoð foreldra Morgans. Hjónin fengu inni hjá systur Morgans en var fljótlega vísað á dyr eftir að blóð hafði fundist inni á baðherberginu eftir sprautunotkun. Systir hans með tvö ung börn sá enga aðra kosti. Morgan og Kiko fluttu því næst inn til foreldra Morgans. Fljótlega fór að bera á árekstrum milli Morgan hjónanna og Kiko. Morgan hjónin stóðu á því að eiginkonan ætti að standa þétt upp við eiginmann sinn í vandræðum hans, jafnvel að vinna þrjár vinnur ef með þyrfti. Kenndu jafnvel Kiko um neyslu sonarins. Það leið ekki á löngu þar til Kiko yfirgaf Morgan og Fíladelfíu fyrir Chicago.

Morgan byrjaði árið 1962 eins og 1961, dópaður í stöðugri leit að peningum til að kaupa dóp. Ótrúlegt nokk, í janúar fór Morgan til New York til að leiða upptökur. Hafandi gert samning um útgáfu á tveimur plötum við Jazzland Records, stuttu eftir brottför sína úr Jazz Messengers. Morgan vantaði svo sannarlega peninga en þó hann hafi verið búinn að veðsetja trompetinn sinn þá hafði hann aðgang að píanói heima fyrir sem hann samdi á, hann fékk svo lánaðan trompet í upptökurnar. Morgan treysti á tónlistarlegt innsæi sitt og reynslu til að keyra dæmið í gegn. Upptökur hjá Jazzland Records voru ekki eins og hjá Blue Note. Hjá Blue Note fengu menn borgaða tvo daga í æfingar áður en plötur voru teknar upp. Hjá Jazzland voru engar æfingar, mönnum var uppálagt að vera með hlutina á hreinu og klára upptökur á einum degi. 

Þegar tekið er tillit til þess að Morgan hafði verið fjarri jazz-senunni í sex mánuði og að hann hafði þurft að leggja á sig ferðalag til borgarinnar, þá má ætla að þessar upptökur hafi verið settar saman í flýti, jafnvel hroðvirknislega. Það er öðru nær, þann 24. janúar 1962 var platan Take Twelve tekin upp, oft nefnd sem ein af bestu upptökum Morgans. Með honum voru Clifford Jordan á sax, Barry Harris á píanó, Bob Cranshaw á kontra og Louis Hayes á trommur. Platan er vendipunktur að einu leyti, spilamennska Morgans varð rólegri en á fyrri plötum og heldur svalari með lengri þagnir á milli fraseringa en þó með sínar klassísku hröðu rokur inn á milli. Tónsmíðar Morgans á plötunni voru í svipuðum stíl og fyrri tónsmíðar, þær áttu þó eftir að taka stakkaskiptum á næstu plötum. Morgan slær nýjan tón með útsetningu sinn á titillagi plötunnar. Take Twelve var óútkomið lag úr smiðju jazzpíanistans Elmo Hope. Lagið var endurútgefið á plötu Elmo „Sounds from Rikers Islands“ undir nafninu „One for Joe“ rúmu ári síðar. Útsetning Morgans á laginu er meistaraleg og spilamennskan hjá bandinu er goðsagnakennd. Tónninn sem gefinn er, er aðeins út fyrir standard Hard Bopið sem Morgan hafði verið að fást við í gegnum tíðina. Það má vera að það hafi haft áhrif á ferlið að þetta er á þeim tíma sem menn eru búnir að vera að spila Hard Bop í ein sjö ár, frá 1955, og mögulega farnir að huga að næstu jazz-byltingu. Sú bylting var kölluð Freedom jazz á meðal jazz-tónlistarmanna en plötufyrirtækin gáfu fyrirbærinu heitið Fusion.

Eftir upptökurnar á Take Twelve fór Morgan aftur heim til Fíladelfíu og hvarf næstu sex mánuði. Hann fékk einstaka gigg með gömlum félögum öðru hverju en þurfti þá alltaf að fá lánshorn sem var tekið af honum um leið og hann hætti að spila á það. Chet Baker hafði búið í sama húsi og mögulega sömu íbúð, um tíma í New York, þegar Morgan bjó þar. Baker setur neyslu Morgans í samhengi:

„Mér líkaði víman, ekki allir bjánarnir sem voru að selja og stela af hverjum skammti, ræna fólk og brenna það inni með ónýtt dóp. Sumir tónlistarmenn leyfðu eiturlyfjum að menga dómgreind sína þannig að þeir hættu að vera sómakærar manneskjur. Eins og þegar þú ferð með annarri manneskju að kaupa 25 dollara poka af efnum og þú drífur þig heim til þess að kokka þetta. Þú snýrð þér við í smá stund og þá er hinn búinn að draga allt efnið upp í sprautuna sína og setja vatn í þína, það er algjörlega sjálfselsk hegðun. Ég á við að ég bjó í sömu byggingu og Morgan og átti við nokkur vonbrigði að etja í þessu samhengi með Morgan.“

Sögusagnir um dauða trompetleikarans fóru á flug í jazz-senunni og í dagblöðum svartra. Nokkrum árum síðar rifjaði Morgan upp að hann hafi hlustað á útsendingu Symphony Sid í útvarpinu af minningarútsendingu vegna dauða Lee Morgans. 

Síðla sumars 1963 var Morgan kominn aftur til New York til að reyna að stimpla sig inn í jazz-senuna á ný. Hann fór hægt af stað, fékk lánaðan trompet til að spila öll kvöld. Reglan í jazz-heiminum varðandi lánshljóðfæri var sú að ef viðkomandi spilari var í heróíni þá varð þriðji aðili að taka ábyrgð á lúðrinum. Menn voru illa brenndir eftir að Charlie Parker hafði veðsett fleiri hundruð hljóðfæri á ferlinum sem hann átti ekkert í, þar á meðal eina 15 saxófóna frá lærlingi sínum Jacky McLean. Það leið ekki á löngu þar til tilboðin hrönnuðust upp hjá Morgan. Í lok september hafði gamli vinur hans Hank Mobley samband og vildi fá Morgan til að vera með sér á plötu. Mobley hafði sjálfur lent illa í því í gegnum heróínneyslu sína. Eftir langa veru hjá Miles Davis, frá 1960 til 1962, átti Mobley í mestu erfiðleikum með að finna vinnu sem „freelancer“. Það varð til þess að hann dembdi sér inn í nýtt tímabil af heróínneyslu. Þessar upptökur voru tækifæri fyrir tvo dópista sem þurftu nauðsynlega að þéna pening, að staðfesta ógnvekjandi orðspor sitt sem spilarar. Heimsóknin í stúdíóið reyndist vera úthaldspróf. Bandið fór í gegnum einar 26 tökur og uppskar sex lög út úr því. No Room for Squares kom svo út í maí 1964. Spilamennska Morgans var alveg á pari við Messengers tímabilið, sjóðandi heit með nýfengnum þroska.

Síðla árs 1963 skráði Morgan sig inn á Lexington afvötnunarstöðina fyrir heróínsjúklinga í Kentucky. Engin opinber tilkynning kom frá Morgan um málið. Dorothy Kilgallen, dálkahöfundur og harðkjarna jazz-aðdáandi, fékk veður af áætlunum Morgans. Hún birti dálk sinn þann 23. nóvember 1963: „Lee Morgan, hæfileikaríki ungi trompetleikarinn, er farinn til Lexington til að fá lækninguna.“ Á barmi nýrrar endurkomu, þá var enn veruleg hætta á því að Morgan myndi láta heróín afvegaleiða sig. Hvað varð raunverulega til þess að hann skráði sig er óvitað. Kannski fór hann sjálfviljugur í von um að endurheimta líf sitt en það er líka mögulegt að hann hafi verið handtekinn og hafi valið lækninguna fram yfir fangelsi eða að Blue Note hafi sett honum úrslitakosti?

Þremur og hálfu ári eftir að Morgan hafði síðast leitt upptökur hjá Blue Note, tími sem hann hafði notað mestmegnis til að dópa, kom Alfred Lion, annar eigandi Blue Note, að máli við Morgan. Lion bauð honum þriggja platna samning. Alfred Lion var mjög annt um Lee Morgan og má vera að hann hafi verið að reyna að hjálpa Morgan. Lion var einnig útsmoginn í viðskiptum. Það er engin spurning að hann hefur heyrt og áttað sig á nýjum þroska Morgans af upptökum hans með Hank Mobley, mögulega áttað sig á að Morgan hefði mun meira að gefa. Hið nýja samstarf Blue Note og Lee Morgan átti eftir að verða mun ábatasamara fyrir báða aðila en þá gat nokkurn tíma órað fyrir.

-Sigþór Hrafnsson

Heimildir: 

Lee Morgan

His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/

Delightfulee

The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee

Hard Bop: Jazz and Black Music 1955-1965

https://www.goodreads.com/en/book/show/134182.Hard_Bop

Hard Bop Academy: The Sidemen of Art Blakey and the Jazz Messengers

https://www.goodreads.com/book/show/1117054.Hard_Bop_Academy

Lee Morgan ii

Undir áhrifum Art Blakey

Það má vera að það sé klisja að kalla The Jazz Messengers skóla en frá miðjum fimmta áratugnum til dauðadags 1990 lagði Blakey mikið á sig til að hjálpa hæfileikaríkum tónlistarmönnum að móta sinn eigin feril. Blakey, einnig þekktur sem Abdullah Buhaina, Bu á meðal vina, var í fyrstu bylgju jazztónlistarmanna til að taka íslamstrú.

Árið 1958, þegar Lee gekk til liðs við The Jazz Messengers, samanstóð bandið af Benny Golson á sax sem var skipt inn fyrir Jacky McLean, Bobby Timmons á píanó tók við af Horace Silver, Lee Morgan á trompet hafði komið inn í staðinn fyrir Bill Hardman og Jymie Merritt tók við bassaleiknum af Doug Watkins.

Frá nóvember 1958 til janúar 1959 spiluðu The Jazz Messengers í Belgíu, Hollandi, Sviss, Þýskalandi og Frakklandi. Viðtökurnar voru vægast sagt góðar. „Í hvert skipti sem við komum í nýja borg sáum við stóra borða á víð og dreif þar sem bandið var auglýst,“ rifjar Jymie Merritt upp. „Tónlist bandsins var spiluð á flugvöllum þegar við fórum í gegn.“ Líkt og aðrir svartir jazztónlistarmenn á undan þeim, upplifðu meðlimir The Jazz Messengers að tónlist þeirra hefði sterkari stöðu og meiri virðingu í Evrópu en heima fyrir. Hljómsveitin spilaði oftast í tónleikasölum í Evrópu á meðan þeim var oftast boðið að spila á knæpum í Bandaríkjunum.

Í febrúar 1959 hætti Benny Golson en hann hafði dregið vagninn að mestu leyti þegar kom að því að semja og útsetja tónlist bandsins. Við tók Hank Mobley á tenórsaxófón. Jymie Merritt minnist þess að „Mobley var með helling af tónlist. Hann spilaði vel en hann var með aðra dagskrá.“ Heróínnotkun Mobleys gerði það að verkum að hann var óáreiðanlegur, rifjar bassaleikarinn upp.

Mobley mætti ekki til Toronto, þar sem hljómsveitin spilaði á jazzhátíð þann 24. júlí. Eins gagnrýninn og Morgan hafði verið á heróínnotkun Mobleys, hafði Morgan sjálfur byrjað að nota heróín á þessum tíma. Saxófónleikarinn Wayne Shorter var einnig á hátíðinni að spila með stórsveit Maynard Ferguson. „Lee Morgan sá mig í áhorfendaskaranum,“ sagði Shorter „og eftir að þeir kláruðu settið kom hann hlaupandi til mín og sagði „hey Wayne! Viltu spila með okkur?“ Ég svaraði „Shit já!“ Shorter vann upp stuttan uppsagnarfrest hjá Ferguson og gekk því næst til liðs við The Jazz Messengers.

Morgan flutti inn í íbúð í New York þar sem hann bjó af og til með vinum sínum frá Fíladelfíu, Bobby Timmons, Tootie Heath, Reggie Workman og Spanki DeBrest. Þessir tónlistarmenn voru allir rétt innan við tvítugsaldurinn og allir nýgræðingar í hinni hröðu og samkeppnishæfu borg jazzsenunnar. Freddy Hubbard sem var jafnaldri Morgans, flutti í borgina um tveimur árum síðar, rifjar hann upp. „Ég var með sorglegar ranghugmyndir … Ég átti von á að þessir gaurar sem höfðu tekið upp plötur væru almennt í hávegum hafðir, ættu fína bíla, fín heimili, bankareikning – að þeir væru vel settir. Þú skoðaðir plötualbúm og hugsaðir, vá, hann er að gera það gott. Hann spilar út um allan heim … Þessir gaurar voru að biðja mig um pening. Líkt og: Lánaðu mér dollar.“

Shorter hafði djúpstæð áhrif á bandið og á Morgan sem einstakling. Á grunni lagasmíða fyrir bandið var litið á Shorter sem einstakan lagahöfund. Lög hans komu með ferska vinda inn í bandið. Fljótandi saxófónstíll hans rímaði vel við „extrovert“ stíl Morgans. Það má heyra á mörgum plötum frá þessu tímabili, með Shorter og Morgan í framlínunni, hvernig þeir sköpuðu eina allra bestu útgáfuna af The Jazz Messengers. Til viðbótar við að hvetja Morgan á sviðinu þá varð nærvera Shorters til þess að kveikja áhuga Morgans á lagasmíðum. Stuttu eftir að Shorter gekk til liðs við bandið, samdi Morgan, nú sem tónlistarstjóri bandsins, „The Midget“, „Haina“ (stytting fyrir múslimanafn Arts Buhaina) og „Afrique“. Samkvæmt Shorter voru tónsmíðar Morgans grundvallartónsmíðar. Hann var mun meira á heimavelli að spila en að semja en hann bað aldrei um hjálp. Það var eitt af því sem ég fílaði við Lee – hann gat strögglast í gegnum þetta einn. Um spilamennsku Morgans sagði Shorter „Eins og Miles þá komst hann yfir alla hjalla með „soundinu“ einu saman. Lee vissi hvernig átti að hita undir án fyrirvara. Hann vissi hvernig átti að „skrifa bréf“ í formi sólós.“

Morgan var reynslubolti í efstu deild aðeins tuttugu og tveggja ára að aldri. Árið 1961 gaf Morgan skýringar á ferðalaginu í viðtali. „Ég vildi að ég væri að byrja núna. Auðvitað er ég þakklátur fyrir tækifærin sem ég hef fengið – að spila með stórsveit Dizzys varla 18 ára gamall. Ég upplifði hluti sem aðrir ungir spilarar hafa ekki tækifæri á að nýta sér. Ég gerði fullt af plötum en það voru bara viðskipti. Ég óska þess að ég væri að byrja að taka upp núna. Of margar upptökur hafa meiri áhrif á blásara en rytmasveitina: Hornið er rödd bandsins. Ég hef ekki mikið nýtt að segja … Ég er að reyna að spila eins og saxófónspilari. Ég mundi vilja geta náð þriggja áttunda fraseringum eins og þeir gera sem þýðir að þú þarft að æfa mjög mikið. Stundum getur maður það ekki sökum þreytu eftir tónleika heilu kvöldin. En mér líkar að spila og í flestum bæjum er ekkert við að vera nema þá æfingar og hlakka til að fara í vinnuna að kvöldi.“

Hræðsla um að of margar útgáfur á unga aldri gætu valdið mettun á viðkomandi spilara á markaðnum stöðvaði ekki Morgan í að læra meira um fag sitt og þróa sig sem listamann. Eitt af átrúnaðargoðum Morgans og náinn vinur, Miles Davis, kom með gagnrýni sem hjálpaði Morgan að finna sína leið: „Og allt þetta tal um hvað Miles er erfiður í umgengni …“ sagði Morgan. „Þú getur ekki spilað eins fallega og hann gerir án þess að vera fallegur að innan. Hann kemur alltaf að sjá mig þegar við erum að vinna í sama bænum. Eitt kvöldið labbaði hann inn þegar við vorum að spila og ég taldi mig hafa spilað mjög vel. Þegar við kláruðum settið fer ég að spjalla við Miles. Hann bara glápti á mig um tíma og spurði svo: „Af hverju hægirðu ekki á þér?“ Það fyndna við það var að hann hafði rétt fyrir sér. Ég fór og hlustaði á plöturnar mínar og áttaði mig á að ég var að spila of mikið. Maður þarf að læra að nota þögnina á milli fraseringa. Ef það væri ekki fyrir Miles þá væri ég ennþá að reyna að ná eins mörgum nótum inn í viðlagið eins og ég gæti.“ Tímabilið með The Jazz Messengers gerði það að verkum að spilamennska Morgans þroskaðist úr því að vera með brjálaða innkomu inn í sóló og að keyra í gegnum hljómaskiptin – hann lærði að tjá hugmyndir sínar með nýjum þroska, ekki aðeins í að ná til áheyrenda, heldur líka að viðhalda tengingunni út í gegn.

Á meðan The Jazz Messengers nutu mikillar velgengni í sköpun sinni um 1960, þá var Morgan að missa stjórn á einkalífinu. Heróínneyslan sem hófst tveim árum áður tók sífellt meiri orku, tíma og peninga frá Morgan. Á meðan bandið naut þessarar miklu velgengni byrjaði Morgan að eyða enn meiri tíma í heróínneyslu árið 1961. Hjónaband hans og Kiko Yamamoto þjáðist fyrir vikið og einnig fagmennska hans. Horfnir voru dagarnir þar sem Morgan lá yfir nýjum lagasmíðum vikum saman. Trompetleikarinn eyddi flestum vökustundum sínum í að ná í heróín og að vera vímaður. Hann brást skuldbindingum sínum sem tónlistarstjóri The Jazz Messengers sem gerði það að verkum að Wayne Shorter tók yfir tónlistarstjórahlutverkið í bandinu. Tónverk Morgans frá 1961 – „Afrique“, „Blue Lace“, „Pretty Larceny“, „Pisces“, „Uptight“ og „The Witch Doctor“ nutu virðingar en voru, samkvæmt Kiko, sett saman í hraði. Hún kallaði hann „The Procrastinator“, að hann væri með frestunaráráttu. Síðar árið 1967 gaf Morgan út plötu með sama nafni. Á meðan sóaði Morgan tíma sínum í heróín og sinnti aðeins mikilvægum málum á síðustu stundu.

Um miðjan júlí árið 1961 kom bandið til New York til að spila viku á The Jazz Gallery. Það var í síðasta skiptið sem hann spilaði með þessari útgáfu af The Jazz Messengers. Í ágúst sama ár var Morgan atvinnulaus. Hann var kominn að krossgötum. Hann gat stofnað sitt eigið band, gengið til liðs við annað band eða spilað sem „session“ maður, til að hafa í sig og á. Í heljargreipum fíknarinnar gat Morgan lítið annað gert en að fæða fíknina, hann spíralaði niður stíg glötunar og sjálfsskaða. Lee Morgan mundi senn ná botninum.

-Sigþór Hrafnsson

Heimildir: 

Lee Morgan

His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/

Delightfulee

The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee

Hard Bop: Jazz and Black Music 1955-1965

https://www.goodreads.com/en/book/show/134182.Hard_Bop

Hard Bop Academy: The Sidemen of Art Blakey and the Jazz Messengers

https://www.goodreads.com/book/show/1117054.Hard_Bop_Academy

Blásið í hátíðarlúðra

Í dag er hátíð hér á Ráðlögðum í tilefni sextugsafmælis aðalgestaskríbents síðunnar, velunnara og verndara, Braga Ólafssonar. Svo heppilega háttar til fyrir mig, umsjónarmann síðunnar, að hann er einnig faðir minn. Reyndar hef ég mögulega aldrei áður kallað hann föður minn, en ég ætla að byrja á því núna fyrst hann hefur náð þessum virðulega aldri. Og ég ætla að hefja þessa færslu á eins fyrirsjáanlegan hátt og hugsast getur, með laginu Song for my Father með Horace Silver kvintettinum, þar sem Joe Henderson og Carmell Jones sjá um að blása í hátíðarlúðrana sem er vísað til í yfirskrift færslunnar:

Eins og þeir sem þekkja pabba vita (ég er strax hætt að kalla hann föður minn, mér finnst að betur athuguðu máli að ég þurfi að vera orðin sextug til þess) er hann óhemjufróður um tónlist. Hann er að vísu óhemjufróður um allt sem hann hefur áhuga á. En ég ætla að beina sjónum mínum að tónlist úr því að við erum stödd hér á tónlistarbloggi. Í þeirri deild má segja að pabbi sé grúskari eins og þeir gerast gerstir. Hvorki bestir né verstir, heldur gerstir; hann viðar að sér bókum og tónlist, þekkingu og staðreyndum til fullnustu, gersamlega, algerlega. Orðið ger getur samkvæmt orðabókinni líka þýtt gráðugur eða átfrekur, sem á kostulega illa við pabba almennt séð, en smellpassar um grúskaraelementið í honum; það verður enginn svona fróður nema hafa verið átfrekur á upplýsingar – graðkað þær í sig af áfergju.

Basil að störfum í desember 2021

Það er einmitt það sem mig grunar að pabbi geri þegar enginn sér til (nema hinn tryggi aðstoðarmaður hans, Basil) innan um staflana af bókum og pappírum á litlu skrifstofunni, á efstu hæð fjármálahverfisins í Reykjavík. Þessu fylgir stöðug inntaka á tónlist, þar sem pabba hættir líklegast stundum til að verða heldur ger, ofmeta jafnvel magamálið, með afleiðingum sem óhjákvæmilega skapa hugrenningartengsl við hið þekkta Mr. Creosote atriði þeirra Monty Python manna (í því sambandi má vísa til fýsískra lýsinga pabba sjálfs á einkennum svokallaðrar jazzeitrunar í færslu hér á blogginu 27. mars 2020).

Í samræðum við pabba er nokkurn veginn sama hvað ber á góma sem viðkemur tónlist, hann getur fyllt út í öll horn og allar glufur með upplýsingum, sögum, forvitnilegum tengingum og obskúr staðreyndum úr ævisögum, heimildamyndum, jafnvel samtölum við persónur og leikendur, því að hann hefur alls staðar verið og alla hitt. Jafnvel nú á stafrænni upplýsingaöld er árangursríkara að fletta upp í honum en gagnabönkum á netinu. Og varla þarf að taka fram að hið fyrrnefnda er alltaf eftirsóknarverðari kostur, því að eins og allir vita sem þekkja pabba, í eigin persónu eða gegnum bækurnar hans, er heimurinn bæði skemmtilegri og áhugaverðari staður frá hans sjónarhóli en annars fólks.

Grúskari í kjörlendi sínu í Maine 2016

Pabbi er fróður um flestar tegundir tónlistar, en af því að áhugasvið okkar skarast helst á lendum jazzins (að minnsta kosti í nokkrum póstnúmerum hans) hef ég fyrst og fremst notið góðs af þekkingu hans í þeim geira. Frá því að ég fékk mínar fyrstu græjur (í fermingargjöf frá honum) hefur bókstaflega streymt til mín jazz og jazztengt efni úr föðurhúsum, í formi geisladiska, bóka, youtube-hlekkja og alls kyns ábendinga. Síðasta ábending var símuð inn síðasta laugardag og ég ætla að birta hana hér (án samráðs), því að hún er svo lýsandi fyrir það hvernig pabbi viðar alls staðar að sér fróðleik og áhugaverðu efni; hann var nýkominn frá Tékklandi og komst þar í tæri við upptökur með þessum lókalmanni, tékkneska bassaleikaranum Miroslav Vitous, ásamt Chick Corea og Roy Hanes.

Og nú er orðið tímabært að sleppa hér lausri annarri fyrirsjáanlegri upptöku í tilefni afmælisins, One for Daddy-O, af einni af flottustu jazzplötu allra tíma, Somethin’ Else með Cannonball Adderley og stórskotaliði sjötta áratugarins. Þetta er einn af mörgum diskum sem pabbi gaf mér einhvern tíma á menntaskólaárunum og er óhætt að segja að sé hluti af „hljóðrás ævi minnar“, svo að vitnað sé í heiti þátta sem nú eru á dagskrá Rásar 1.

En allt er þetta nú aðeins inngangur að aðalefni þessarar hátíðarfærslu. Í tilefni dagsins verða hér endurbirtar allar sex færslurnar sem pabbi sendi á bloggið á fjögurra vikna tímabili í mars og apríl árið 2020, í upphafi sögulegra samkomutakmarkana. Á þessum tíma gekk um veraldarvefinn sá stafræni samkvæmisleikur að deila tíu eftirlætisplötum sínum – og Ráðlagður fór þess að sjálfsögðu á leit við sinn aðalskríbent að setja saman slíkan lista. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og innan fárra vikna hafði birst hvorki meira né minna en fimmtíu platna listi. Eins og lesendur muna ef til vill stóð þetta tæpt á tímabili; í þágu verkefnisins féll pabbi í þá gryfju að raða meiru í sig en magamálið réði við, eins og Mr. Creosote hér að framan. En til allrar hamingju tókst honum að tjasla sér saman og klára listann góða, sem birtist nú hér á einum stað til upprifjunar og upplyftingar fyrir lesendur bloggsins – og með kærri afmæliskveðju til þín, elsku pabbi!